Heilsuteymi - skólamáltiðir

Heilsuteymi Borgarhólsskóla fékk Elínu Sigurborgu Harðardóttur næringarfræðing til að skoða matseðil mötuneytisins í samræmi við lög og reglugerðir þar um.

 

Heilsuteymi Borgarhólsskóla fékk Elínu Sigurborgu Harðardóttur næringarfræðing til að skoða matseðil mötuneytisins í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Gerð var grófleg úttekt, þ.e. matseðlarnir voru ekki næringarútreiknaðir, heldur einungis skoðaðir m.t.t. fjölbreytni, tíðni fæðutegunda og samsetningar fyrir hvern dag, fyrir vikuna og yfir tímabilið.
Tekið skal fram að einungis næringarútreiknaðir matseðlar geta gefið rétta mynd af því, hvort fæðið er í samræmi við ráðleggingar um magn orkuefna og bætiefna. Elín var nokkuð ánægð með matseðla Borgarhólsskóla og athugasemdir hennar og ábendingar til breytinga voru ekki margar og alls ekki alvarlegar. Hennar faglega mat er að matseðlarnir séu nokkuð vel í samræmi við ráðleggingar Embætti landlæknis um skólamáltíðir .
Við erum nokkuð ánægð með niðurstöðuna og höldum ótrauð áfram og tökum athugasemdir hennar til okkar.

 

Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þessar:
  • Fjölbreytni í fæðuvali og eldunaraðferðum er mjög góð og yfirleitt nokkuð gott jafnvægi á milli þeirra fæðutegunda sem í boði er – í hverri máltíð, á milli daga og einnig yfir tímabilið.
  • Ekki er verið að bjóða oftar upp á kjötmáltíð en fiskmáltíð, sem gefur gott jafnvægi.
  • Oftar mætti hafa fisk.
  • Matseðlarnir eru frábrugðnir öðrum skólamatseðlum sem hún hafði séð að því leyti að það er alltaf boðið upp á létta máltíð 2svar í viku. Ekkert verra svo lengi sem létta máltíðin er vel samsett, þ.e.a.s. að það sé passað upp á að hafa próteinríkar fæðutegundir með í máltíðinni.
  • Mjög gott að sjá hversu mikil fjölbreytni er í fiskmáltíðum og að feitur fiskur sé líka í boði, þær mega hins vegar vera fleiri.
  • Verulega jákvætt að unnar keyptar matvörur eru afar sjaldan í boði.
  • Grænmeti er mjög oft í boði - þó ekki alltaf og oftast er þá ávöxtur í boði í staðinn, t.d. þegar er létt máltíð (súpa, grautur, skyr....).
  • Mjög gott að hafa salatbar, þar sem börnin geta þá valið sínar uppáhalds grænmetistegundir.
  • Ávextir mjög oft í boði - sem er mikilvæg viðbót í fæði barnanna.
  • Afar sjaldan pastamáltíð - gott mál, því slíkar máltíðir geta ansi oft orðið einum of kolvetnaríkar.

Athugasemdir