Unglingar út fyrir rammann og til fyrirmyndar

Árlega fara nemendur 9.bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík í ungmennabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Nemendur fæddir á aldamótaárinu fóru í búðirnar í síðustu viku, net- og símalausir enda bannað að hafa síma eða önnur nettengd raftæki með sér. Í stuttu máli gekk ferðin í alla staði reglulega vel og ástæða til að vera stolt af unglingunum okkar.

Árlega fara nemendur 9.bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík í ungmennabúðirnar að Laugum í Sælingsdal. Nemendur fæddir á aldamótaárinu fóru í búðirnar í síðustu viku, net- og símalausir enda bannað að hafa síma eða önnur nettengd raftæki með sér. Í stuttu máli gekk ferðin í alla staði reglulega vel og ástæða til að vera stolt af unglingunum okkar. Ásamt nemendum Borgarhólsskóla voru þar jafnframt krakkar frá Hofsósi, Snæfellsnesi og nágrannar okkar úr Þingeyjarsveit. Samtals um hundrað krakkar saman komnir. Þarna mynduðust vináttusambönd sem vonandi eiga eftir að halda inn í framtíðina enda auðvelt með nútímatækni.

Verkefnin sem krakkarnir þurfa að glíma við er margskonar. Það reynir á samheldni, samvinnu, kjark og þor. Þess er krafist af hverjum og einum að hann leggi sig fram fyrir sinn hóp. Krökkunum er skipt upp í hópa sem keppast í góðlátlegri en alvarlegri keppni um besta liðið á Laugum þá vikuna. Keppnin felst í hvers konar þrautum sem reyna m.a. á líkamlega færni, rökhugsun, gleði og samstarf. Því er óhætt að segja að margir krakkanna hafi neyðst til að stíga út fyrir hinn örugga þægindaramma nútímaunglingsins. Jafnframt fara nemendur á söguslóðir Eiríks rauða, heimsækja fjósið á Erpsstöðum og ganga á Tungustapa sem er álfakirkjan í dalnum.

Það er ástæða til að segja frá því þegar vel gengur og ekki síst þegar unglingarnir okkar eiga í hlut. Sjálfir voru þeir mjög ánægðir með ferðina og voru sér og sínum til mikils sóma í alla staði.

Björgvin Friðbjarnarson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Sólveig Jónsdóttir


Athugasemdir