Bekkjarfulltrúar

Hlutverk bekkjarfulltrúa er að stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan hvers bekkjar. Bekkjarfulltrúar eru kosnir af foreldrum eða tilnefndir í samráði við fyrri bekkjarfulltrúa. Bekkjarfulltrúar eru tveir fyrir hvern bekk og einungis er skipt um annan bekkjarfulltrúann í hvert sinn, þannig að þeir sitja tvö ár í senn.
 
Umsjónarkennari kallar saman foreldra barnanna í bekknum á kynningarfundi, eigi sjaldnar en tvisvar á ári, í fyrra skiptið í upphafi skólaárs. Á þessum fundi er félagsstarf bekkjarins mótað í samráði við umsjónarkennara. Fyrir þennan fund undirbýr bekkjarfulltrúinn kosningu eftirmanns síns, hafi hann ekki verið kosinn á síðasta fundi að vori.
 
Bekkjarfulltrúinn er reiðubúinn til að aðstoða kennarann við að skipuleggja þátttöku foreldra í skólastarfinu, t.d. í tengslum við vettvangsferðir, starfskynningu og heimsóknir foreldra í bekkinn.
 
Hann er tengiliður foreldra við kennarann og kemur sjónarmiðum þeirra á framfæri þegar þess gerist þörf.
 
Hann hefur frumkvæði að því að sem flestir foreldrar séu virkir í bekkjarstarfinu. Best er að skipta verkefnum með foreldrum í upphafi skólaárs, t.d. foreldrarölt og umsjón bekkjarskemmtana. Gott er að mynda hópa nokkurra foreldra til að vinna verkefnin.
 
Hann sér um að safnað er í bekkjarmöppu gögnum um foreldrastarf hvers vetrar, svo sem fundargerðum, myndum og öðru sem gaman er að eiga til seinni tíma og fyrir nýja bekkjarfulltrúa til glöggvunar á starfi bekkjarins og skemmtunum.
 
Hann er tengiliður foreldra við stjórn foreldrafélagsins, tekur þátt í fundum þess og miðlar upplýsingum í báðar áttir.
 
 
 
Yfirfarið af stjórn foreldrafélagsins
03.10.06.