Orðsending til foreldra

Foreldrafélag Borgarhólsskóla vill ítrekað minna á lögin um útivist og látum hér fylgja með nokkur góð rök fyrir því að þau séu haldin.
 
Eftirfarandi birtist í bæklingi gefnum út af Heimili og skóla "Allir hinir mega".
 
  • Stöndum saman - Útivistarreglur eru eins og umferðarreglur því fleiri sem virða þær því auðveldar ganga hlutirnir fyrir sig. Við veitum hvert öðru ómetanlegan stuðning í foreldrahlutverkinu ef við komum okkur saman um meginreglur og stöndum við þær.
 
  • Foreldrar bera ábyrgðina - Stundum þarf að halda fast um taumana þótt það veki tímabundnar mótbárur. Við berum ábyrgð á uppeldi og velferð barnanna og hljótum að eiga að haga uppeldinu þannig að börnin verði ekki fyrir áföllum.
 
  • Lög eru lög - Útivistarreglurnar eru bundnar í landslög og okkur ber að fara að lögum. Við sendum börnum okkur ýmis skilaboð ef við hundsum gildandi reglur. "það er allt í lagi að brjóta lögin, þau eru hvort sem er svo fáránleg." Viljum við stuðla að slíku?
 
  • Alls staðar eru reglur - Ef við viljum búa börnin okkar vel undir lífið þá er mikilvægt að þau venjist því frá unga aldri að samfélagið setur þegnum sínum ýmsar reglur. Bankar loka t.d. yfirleitt kl. 16:00 og þýðir lítið að argast út í það.
 
  • Unglingar þurfa nægan svefn - Unglingur þarf minnst 9 tíma svefn. Sá sem kemur seint heim fer seint í háttinn. Skólinn er vinnustaður barnanna, syfjaðir og þreyttir nemendur afkasta litlu og námsárangur þeirra verður slakari en ella.
 
  • Hætturnar leynast víða - Sumum finnst þessar útivistarreglur of strangar og telja þær ekki í takt við tímann. Menn ættu að hugleiða að í nútímasamfélagi stafar unglingum hætta af mörgu. Slys gera ekki boð á undan sér og það er talið álíka auðvelt fyrir unglinga að útvega sér áfengi og pizzu. Samræmdar útivistarreglur eru settar til verndar börnum og unglingum.
 
  • Horfum til framtíðar - Takist okkur að snúa þróuninni við og koma í veg fyrir að þau börn sem nú eru yngri en 12 ára fari að hanga úti á kvöldin verða færri 14-15 ára á ferli á nóttunni eftir nokkur ár.