Byrjendalæsi

Kennsla á yngsta stigi í Borgarhólsskóla fer fram samkvæmt aðferðum Byrjendalæsis. Kennarar eru í samstarfi við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri og þangað sækja þeir námskeið og ráðgjöf varðandi Byrjendalæsi. Allir umsjónarkennarar á yngsta stigi eru þátttakendur í Byrjendalæsi og leiðtogi í Borgarhólsskóla er deildarstjóri 1. – 7. bekkjar.

Byrjendalæsi er kennsluaðferð sem hefur verið mótuð og þróuð af skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái sem fyrst árangri í lestri.

Grunnstoðir Byrjendalæsis eru:

  • Lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir sem unnið er með á heildstæðan hátt.
  • Merkingarbær viðfangsefni sem byggja á gæðatexta.
  • Markviss samvinna og samskipti nemenda í námi.
  • Einstaklingsmiðun í kennslu, stigskiptur stuðningur við nám.
  • Markviss kennsla aðferða styðja við lesskilning og fjölbreytta ritun.
  • Nám án aðgreiningar, einstaklingsþörfum mætt innan nemendahópsins.

Í Byrjendalæsi vinna kennarar eftir fyrirframgerðum kennsluáætlunum sem ná venjulega yfir eina viku. Í upphafi lotu les kennari texta, sögu, ljóð og innihald textans er rætt. Síðan er unnið með stafi, réttritun og málfræði. Alltaf er unnið með lykilorð úr textanum en það orð stendur sem fulltrú þess sem á að kenna. Ef það á t.d. að leggja inn eða kenna stafina Aa og Ss í fyrsta bekk þá gæti bókin Asnaskóli orðið fyrir valinu og nafn bókarinnar verið lykilorðið. Oftast er byrjað á að finna orðin í orðinu og síðan er kappkostað að vinna á fjölbreyttan hátt með orðið, hljóðin og form stafanna. Samhliða þessari tæknivinnu hefst enduruppbygging . Þá semja nemendur frá eigin brjósti ýmislegt sem tengist orðaforða eða efni textans. 

Þess ber að geta að ekkert hefur eins mikil áhrif á lestrarnám barna og þátttaka foreldra. Því er lögð rík áhersla á samvinnu heimilis og skóla í Byrjendalæsi.