Eineltisáætlun skólans

Aðgerðaáætlun gegn einelti í Borgarhólsskóla

1. Stefnuyfirlýsing

Starfsfólk og nemendur Borgarhólsskóla lýsa því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í skólanum.

Skólinn á að vera öruggur staður þar sem nemendum og starfsfólki líður vel og leggur áherslu á að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt.

Borgarhólsskóli vinnur samkvæmt áætlun sem byggir á kerfi Dan Olweusar og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn einelti. Hún byggir ekki einungis á ákveðnum viðbrögðum þegar einelti kemur upp heldur er einnig um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða .

2. Skilgreining á einelti

Einelti er endurtekið eða viðstöðulaust áreiti eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt framkvæmt af einstaklingi eða hópi einstaklinga sem veldur öðrum viljandi tjóni, óþægindum eða vanlíðan. Einelti getur haft alvarlegar afleiðingar og haft áhrif á nám, líðan og félagsþroska bæði fyrir þolanda og geranda.

Það er þrennt sem einkennir eineltishugtakið samkvæmt Olweus, það er:

  • Árásahneigð (ýgi-) eða illa meint atferli.
  • Endurtekning sem stendur yfir ákveðinn tíma.
  • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum.

Einelti getur birst í mörgum myndum, það getur verið:

  • Líkamlegt: Barsmíðar, hrindingar, spörk
  • Munnlegt: Niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni og uppnefni.
  • Skriflegt: Tölvupóstur, smáskilaboð, krot, bréfasendingar.
  • Óyrt: Augngotur, háðsglott, niðrandi tákn.
  • Óbeint: Baktal, útskúfun, útilokun.
  • Efnislegt: Eigur skemmdar eða þeim stolið
  • Andlegt: Barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

3. Vísbendingar um einelti

Einhverjar eftirtalinna vísbendinga koma gjarnan fram ef um einelti er að ræða ef nemandinn:

  • Er hræddur við að ganga einn í skólann eða heim.
  • Vill ekki fara í skólann
  • Kvartar undan vanlíðan á morgnana og í skólanum.
  • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka.
  • Kemur heim með rifin föt og skemmdar námsbækur.
  • Byrjar að stama, missa sjálfstraustið.
  • Leikur sér ekki við önnur börn.
  • Neitar að segja hvað amar að.
  • Kemur heim með marbletti eða skrámur sem hann getur ekki skýrt.
  • Verður árásargjarn og erfiður viðureignar.
  • Kemur heim í öllum hléum skólans.
  • Vill ekki taka þátt í félagsstörfum.
  • Er oft með slæma matarlyst, höfuðverk eða magapínu.
  • Sefur illa, fær martraðir og grætur jafnvel í svefni.
  • Fram kemur aukin peningaþörf.

Hér má finna bækling fyrir foreldra með ýmsum upplýsingum og ráðleggingum varðandi einelti frá Olweus

Hér má finna HANDBÓK UM EINELTI OG VINÁTTUFÆRNI frá Heimili og skóla.

4. Nemendaverndarráð/eineltisteymi

Fulltrúar nemendaverndarráðs gegna hlutverki eineltisteymis í Borgarhólsskóla. Í ráðinu sitja skólastjórnendur, námsráðgjafi, sálfræðingur og skólahjúkrunarfræðingur. Alltaf er hægt að vísa málum til ráðsins sem fundar hálfsmánaðarlega og/eða eftir þörfum.

Eineltisteymi hefur umsjón með og sinnir faglegri forystu í eineltismálum innan skólans. Það veitir starfsfólki skólans, nemendum og foreldrum leiðsögn í málum sem upp kunna að koma.

5. Fyrirbyggjandi aðgerðir

Nemendur verði fræddir um stefnu skólans:

Hvorki einelti né annað ofbeldi er liðið í Borgarhólsskóla.

Nemendur fá kynningu á áætlun gegn einelti í skólanum. Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki við að efla samskipti innan bekkja og sjá um fræðslu um einelti, einkenni þess og áhrif og að það eigi aldrei að líðast.

Reglulegir bekkjafundir eru í hverjum bekk þar sem rædd eru málefni bekkjarins og ýmis mál er lúta að skyldum okkar og ábyrgð í samfélaginu.

Í hverri bekkjarstofu er veggspjald sem sýnir eineltishring Olweusar sem kynntur er fyrir nemendum og ræddur innan bekkjarins undir stjórn umsjónarkennara.

Kennarar eru hvattir til að kortleggja samskipti í bekknum sínum með því að leggja fyrir tengslakannanir sem hæfa aldri nemenda á hverjum vetri eða þegar ástæða þykir.

Nemendur eru hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti eða ofbeldi.

Unnið er með fræðslu um einelti í Borgarhólsskóla á hverju ári og/eða eftir þörfum.

6. Viðbragðsáætlun

Könnunarstig

  • Umsjónarkennarinn er í lykilhlutverki í öllum eineltismálum. Vakni grunur um einelti þarf tilkynning að berast til umsjónarkennara þolanda og geranda. Þeir byrja á því að ræða einslega við þá nemendur sem nefndir eru og athuga hvort vísbendingar eiga við rök að styðjast.
  • Annað starfsfólk sem vinnur með nemendunum er látið vita um aðstæður til þess að það geti fylgst vel með þeim sem hlut eiga að máli utan kennslustofu og í frímínútum. Starfsmenn skrá það sem þeir sjá og heyra þegar þeir fylgjast með og koma skráningu til umsjónarkennara.
  • Umjónarkennari ræðir við bekkinn og leggur fyrir tengslakönnun ef honum finnst ástæða til.
  • Samband haft við foreldra/aðstandendur ef þurfa þykir.
  • Ef ekki eru um einelti að ræða telst málinu lokið. Ef um einelti er að ræða er málinu vísað áfram.

Grunur um einelti staðfestur

  • Ef grunur um einelti er staðfestur er tilkynningarblað um einelti fyllt út og það afhent bæði umsjónarkennara og námsráðgjafa til vörslu.
  • Umsjónarkennari hefur samband við nemendaverndarráð/eineltisteymi sem aðstoðar með greiningu málsins.
  • Umsjónarkennari ræðir við þolanda og foreldra hans. Þau látin vita að málinu verði fylgt eftir og næstu skref útskýrð.
  • Umsjónarkennari ræðir við geranda og foreldra hans. Honum verður gert ljóst að hann verði að bæta ráð sitt og að hann verði undir ströngu eftirliti.
  • Umsjónarkennari vinnur samkvæmt handbók Dan Olweusar gegn einelti.
  • Ef einelti hættir telst málinu lokið en fylgst áfram með geranda og þolanda. Ef einelti heldur áfram er málinu vísað áfram.

Frekari vinnsla málsins

  • Ef aðgerðir bera ekki árangur fundar umsjónarkennari aftur með nemendaverndarráði sem fylgir málinu eftir með frekari ráðgjöf og aðstoð við úrvinnslu.
  • Geranda og foreldrum gert ljóst að skólinn sætti sig ekki við hegðunina og málinu vísað áfram.
  • Gangi ekki að uppræta eineltið innan veggja skólans er leitað til sérfræðinga á Félags- og skólaþjónustu.

 

Við berum öll ábyrgð

Allir sem koma að uppeldi og vinnu með börnum og unglingum bera ábyrgð á því að þau finni til öryggis, hvort sem er á heimili, í skóla eða við félagsstörf. Allir þessir aðilar þurfa að vinna saman. Best er þegar þeir eru samstíga í því að skapa jákvæðan aga og setja skýr mörk.