Móttaka nemenda með þroskafrávik/fötlun

Í 17. gr. grunnskólalaga er kveðið á um að nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
Í Borgarhólsskóla hefur um árabil verið lagður metnaður í að koma til móts við nemendur miðað við þroska þeirra og getu. Þar er unnið eftir menntastefnunni skóli án aðgreiningar. Áhersla er lögð á að nemendur stundi nám sitt sem mest inni í bekk. Ef annað námsumhverfi þykir hins vegar ákjósanlegra við ákveðnar aðstæður er tekið tillit til þess. Nemendum með greinda náms- og/eða hegðunarerfiðleika s.s. dyslexiu, stærðfærðiörðugleika, almenna námsörðugleika eða ADHD, stendur til boða stuðningur sem getur falist í einstaklingskennslu, sérkennslu í litlum hópi eða stuðningi inn í teymum, skipulögð til lengri eða skemmri tíma. Námið er aðlagað að getu nemenda með námsaðlögun eða einstaklingamarkmiðum, skipulag og inntak kennslunnar byggir á greiningum og mati á stöðu nemenda og getur falið í sér verulegar breytingar á markmiðum, námsefni, námsaðstæðum og kennsluaðferðum. Lögð er áhersla á fjölbreytta kennsluhætti inn í teymum svo að betur sé komið til móts við námsþarfir hvers og eins. Prófataka og námsgögn eru miðuð við stöðu hvers nemanda. Aukið vægi list- og verkgreina hentar sumum nemendum betur en bóknámið og er reynt að bjóða þeim upp á fleiri tíma í þeim greinum.

Allir nemendur eru í umsjónarhópi teymis, þar er þeirra heimastöð, stundaskrá, námsgögn, skólataska ofl. Námsmarkmið, námsefni, námsaðstæður, kennsla, þjálfun og samskipti er miðað við getu og þroska nemandans. Nemendur vinni eins mikið og hægt er á sínu teymissvæði.

Í byrjun hvers árs fara starfsmenn frá Borgarhólsskóla og Leikskóla Grænuvalla sameiginlega yfir væntanlega nemendur í 1. bekk og þá sérstaklega með í huga börn með sérþarfir svo að skólinn geti undirbúið komu þeirra. Í framhaldinu vinnur sérkennari/þroskaþjálfi/iðjuþjálfi í skólanum ásamt foreldrum einstaklingsnámskrá út frá niðurstöðum Greiningarstöðvarinnar, námskrá úr leikskóla og áherslum foreldra. Aðlögun að grunnskólanum fer eftir þörfum hvers einstaklings, í sumum tilvikum getur mikil aðlögun valdið kvíða á meðan hún eykur öryggi annarra. Þegar von er á barni með sérstakar þarfir í skólann, reynum við að efla færni starfsmanna til að vinna með barninu með því að gefa þeim tækifæri á að sækja námskeið.Teymi er myndað um hvern nemanda með fötlun sem skipað er umsjónarkennara, þroskaþjálfa/iðjuþjálfa eða sérkennara og stuðningsfulltrúa. Yfirleitt eru það þessir þrír aðilar sem koma mest að börnunum. Stuðningurinn skiptist á milli þjálfa/kennara og stuðningsfulltrúanna. Stuðningsaðilar inn í bekk eiga að sinna öllum nemendum bekkjarins þegar tækifæri gefst. Við reynum að efla sjálfstæði barna með þroskafrávik með því að víkja frá þeim eins og hægt er og aðstoða þá önnur börn á meðan. Þannig vinnum við gegn hinu lærða hjálparleysi sem vart verður við hjá nemendum sem þurfa mikla aðstoð. Stuðningsaðilinn er þá ekki eins og frímerki á barni með fötlun heldur hluti af starfi bekkjarins. Þetta getur reynst afar notadrjúg aðstoð fyrir aðra nemendur í bekknum. Reglulega funda þessir aðilar sem eru í teyminu þ.e. umsjónarkennarar, þroskaþjálfi og stuðningsfulltrúi, þar sem þeir fara yfir stöðu mála í bekknum og undirbúa þá daga sem fram undan eru. Mikilvægt er að umsjónarkennari taki þátt í skipulagi á námi nemenda með sérþarfir og þroskaþjálfi og stuðningsfulltrúi séu þátttakendur í skipulagi á vinnu bekkjarins svo að aðkoma þeirra að bekknum nýtist sem best og að aðgreining verði sem minnst.

Sérkennarinn, þroskaþjálfinn eða iðjuþjálfinn innan teymisins ber ásamt umsjónarkennara ábyrgð á námi nemenda með fötlun. Hann útbýr einstaklingsnámskrá í samstarfi við foreldra, umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa, út frá ráðgjöf og greiningu Greiningarstöðvar sem oftast er ný eða nýlega endurmetin við upphaf skólagöngu. Hann skipuleggur nám nemenda sinna og námsaðstæður, útbýr námsgögn, metur námsárangur og endurskoðar markmið ásamt samstarfsaðilum. Einstaklingsnámskráin er í reglulegri endurskoðun af starfsmönnum og  foreldrum. Foreldrar lesa yfir námskrána og koma með eigin hugmyndir að áherslum. Að vori eiga allar námskrár að vera tilbúnar fyrir næsta skólaár. Námsmatið þarf að vera fjölbreytt og mikilvægt er að það sé hugsað fyrir nemendur jafnt sem foreldra.

Samstarf milli heimilis og skóla er miðað að aðstæðum og þörf hverju sinni og getur verið í formi funda, samskiptabóka og tölvupósta. Vinnubrögð heimilis og skóla eru samræmd. Þátttaka foreldra í námi barna sinna er lykilatriði í námsframvindu þeirra. Við viljum hafa foreldra sem virkasta í skipulagningu á námi barnanna. Með því móti eykst samstaða, traust og jákvæð viðhorf á báða bóga. Þar með aukum við vellíðan barnsins í skólanum.

Stuðningsfulltrúar vinna samkvæmt einstaklingsnámskrá nemenda og aðstoða þá við daglegar athafnir og þátttöku í skólastarfi. Þeir aðlaga verkefni og aðstæður að getu nemandans og aðstoða hann við að fylgja fyrirmælum um hegðun, samskipti, umgengni og vinnubrögð.

Verksvið iðjuþjálfa innan skólans er að efla þátttöku nemenda við skólatengd verk, aðlögun umhverfis og viðfangsefna, þjálfun, ráðgjöf til nemenda, foreldra og starfsmanna, útvegun hjálpartækja, leggja fyrir greiningar ásamt ýmsu fleira. Nemendur fara í iðjuþjálfun á skólatíma. Einnig fá þeir fylgd í sjúkraþjálfun á skólatíma. Sjúkraþjálfunin fer fram í húsi Heilbrigðisstofnunarinnar. Sjúkraþjálfari og iðjuþjálfar skipta með sér verkum og samræma vinnu með einstaklingana ásamt því að veita öðru starfsfólki ráðgjöf.

Talmeinafræðingur kemur í skólann einu sinni í mánuði frá Akureyri. Þá daga sem hún kemur fara börnin í talþjálfun á skólatíma í skólahúsnæðinu.

Tónlistarskóli Húsavíkur er staðsettur innan grunnskólans. Allir nemendur í 1.-4. bekk fara í svokallað Tónlistarverkefni sem er tónlistarnám sem sveitarfélagið býður þeim uppá. Er það einnig á skólatíma.

Iðjuþjálfun, talþjálfun, sjúkraþjálfun og tónlistarnám fer fram á skólatíma barnanna og vinnutíma foreldra.

Reglulega eru haldnir stærri teymisfundir þeirra sem koma að barninu. Það eru foreldar, umsjónarkennari, sérkennari/þroskaþjálfi/iðjuþjálfi, deildarstjóri skóla, deildarstjóri málefna fatlaðra hjá Norðurþingi, iðjuþjálfi, sjúkraþjálfari, aðili frá skólavistun, liðveislu eða stuðningsfjölskyldu eftir því sem við á.

Í námi fatlaðra nemenda vinnum við sem mest út frá styrkleikum þeirra. Við reynum að hafa aukið vægi á list- og verkgreinum og að nemendur fái auka íþróttir og sundtíma eftir þörfum. Stundum sjá faggreinakennarar þessara greina um kennsluna þar sem þeir fá til sín litla hópa nemenda með stuðningi. Þroskaþjálfi/iðjuþjálfi fylgja nemendum í list- og verkgreina tíma alveg eins og stuðningsfulltrúarnir þar sem mikilvægt er að þeir fái tækifæri til að kynnast nemendum sínum á sem flestum sviðum til að meta styrkleika þeirra og veikleika og skipuleggja námið út frá því.

Mikilvægt er að efla tengsl milli allra nemenda innan teyma. Þess vegna reynum við að haga aðstæðum þannig að öllum nemendum líði vel í teyminu. Sum börn með fötlun tengjast bekkjarfélögunum vel á meðan önnur sýna þeim lítinn áhuga. Stundum veljum við í samráði við foreldra, að leggja áherslu á samveru inn í bekk og það að vera hluti af hópnum á kostnað annarar þjálfunar sem þarf að fara fram maður á mann utan bekkjar. Þetta höfum við séð að skili árangri. Einnig finnum við það að þegar börn með fötlun vinna saman og hittast þá er oft glatt á hjalla. Því vinnum við einnig með þau saman í litlum hópum. Við reynum að skipuleggja námsaðstæður fyrir hvern og einn út frá því hvað hentar viðkomandi.

Við fræðum nemendur almennt um sérþarfir og einnig þá einstaklinga sem þarf að taka tillit til. Bekkjarsystkini þekkjast yfirleitt vel úr leikskóla, hafa alist þar upp saman og þekkja ekki annað en að umgangast börn með einhvers konar sérþarfir þannig að áreiti gagnvart fötluðum börnum kemur afar sjaldan upp. Til að forðast fordóma er fræðsla besta vopnið. Einnig er mikilvægt er að allir starfsmenn skólans séu upplýstir um sérþarfir barna í skólanum.

Mikill metnaður ríkir meðal starfsfólks Borgarhólsskóla hvað varðar vinnu með nemendur með þroskafrávik/fötlun og bjóðum við þeim upp á heildstæða þjónustu á skólatíma og samræmd vinnubrögð fagaðila.