Það er vor í lofti. Þá birtast nemendur og starfsfólk gjarnan á reiðhjóli þegar mætt er til vinnu. Reiðhjól eru lögum samkvæmt skilgreind sem ökutæki og því gilda í grundvallaratriðum sömu lög og reglur um akstur reiðhjóla og bíla. Þó er sú undantekning á að hjóla má á gangstéttum og gangstígum en hjólreiðamaður skal þar víkja fyrir gangandi vegfarendum og sýna þeim fulla tillitsemi. Börn yngri en 16 ára ber samkvæmt lögum að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram síðastliðinn föstudag í Safnahúsinu á Húsavík. Tíu ungmenni úr 7. bekk úr Borgarhólsskóla, Þingeyjarskóla, Grunnskólanum á Þórshöfn og Öxarfjarðarskóla komu fram og fluttu mál sitt fyrir gesti.
Síðastliðinn sunnudag fagnaði UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna alþjóðalega tungumáladeginum. Tilgangurinn er að stuðla að fjölbreytni í tungumálum, menningu og fjöltyngi. Í tilkynningu frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir að aukin vitundarvakning hafi orðið um allan heim um hve mikilvæg tungumál séu til að þróa sjálfbær samfélög. Menningarlegur fjölbreytileiki sé nauðsynlegur sem og samstarf til að allir hafi aðgang að góðri menntun.
Frá og með 24. febrúar verður heimilaður hámarksfjöldi nemenda 150 í hverju rými og blöndun milli sóttvarnahólfa heimil á öllum skólastigum. Regla um nándarmörk verður 1 metri í stað tveggja og gildir það jafnt milli nemenda og starfsfólks. Ef ekki er hægt að virða 1 metra regluna þarf að bera grímu. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Í vikunni fór fram undankeppni skólans vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Verkefnið sjálft hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Tíu nemendur 7. bekkjar öttu kappi í upplestri en keppnin fór fram í Sal skólans.
Það eru Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem standa fyrir keppninni á landsvísu en umsjón með verkefninu er í höndum skólaskrifstofa í hverju héraði.
Nemendur í öðrum og þriðja bekk hafa að undanförnu verið að vinna mjög fjölbreytt og skemmtilegt verkefni þar sem margar námsgreinar voru samþættar og unnið með fjölmörg hæfniviðmið úr aðalnámskrá grunnskóla. Þau eru til dæmis að vinna með sérhljóða og samhljóða, taka þátt í samræðu og samstarfi í jafningjahópi, hafa kynnst helstu dýrategundum sem finna má á Íslandi og muninum á villtum dýrum, húsdýrum og gæludýrum ásamt því að kynnast muninum á náttúru og manngerðu umhverfi.
Hvað er mælikvarði á skólastarf? Verkefnið Skólapúlsinn mælir viðhorf skólasamfélagsins til skóla ár hvert. Það er mikilvægt að útvega skólastjórnendum og sveitarfélaginu áreiðanleg, langtímamiðuð, samanburðarhæf og aðgengileg gögn um mikilvæga þætti í skólastarfinu. Í því felst að leggja spurningalista fyrir foreldra, nemendur og starfsfólk.
Alþjóðlegi netöryggisdagurinn var haldinn í liðinni viku. Hann er haldinn árlega víða um heim til að vekja athygli á öryggi barna á neti og til að hvetja til góðra samskipta á neti. Á Íslandi er hann skipulagður af SAFT. SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi.