Stuðningur við nám

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. (Lög um grunnskóla 2008, 17. gr.)

Til að mæta ólíkum þörfum nemenda býður skólinn upp á sérkennslu, stuðning  og þjálfun hjá ýmsum sérfræðingum. Stuðningur við nám fer að mestu fram innan teymis með sem minnstri aðgreinigu. Lagðar eru fyrir skimanir og greiningar.

Mikilvægt er að þau viðhorf séu ríkjandi í skólasamfélaginu að fjölbreytileiki sé ákjósanlegur, nemendur séu flóra einstaklinga sem búa yfir hæfileikum á ýmsum sviðum og vinna að ólíkum verkefnum á mismunandi hraða miðað við áhuga og færni.Heildaráætlun um skipulag sérkennslu/stuðnings í Borgarhólsskóla 2019-2020

Í Borgarhólsskóla er teymiskennsla. Nemendum er skipt í sex teymi, 1. bekkur, 2.-3. bekkur, 4.-5. bekkur, 6.-7. bekkur, 8.-9. bekkur og 10. bekkur. Í hverju teymi eru umjsónarkennarar ásamt starfsfólki sem sér um stuðningsúrræði. Í hverju teymi er sérmenntaður aðili, sérkennari, almennur kennari, þroskaþjálfi eða iðjuþjálfi nema í 1. bekk. Einnig starfa stuðningsfulltrúar í öllum teymum. Starfsmenn teymisins bera sameiginlega ábyrgð á námi nemenda þó að verkskipting sé um skipulag og framkvæmd.

Lögð er áhersla á að sérkennsla og stuðningur við nemendur sé í höndum starfsmanna þess teymis sem nemandinn er í og fari fram á teymissvæði hans, sem mest í stofu með samnemendum. Einnig er lögð áhersla á að allir starfsmenn teymis komi á einn eða annan hátt að kennslu og samskiptum við alla nemendur í teyminu.

Á hverju teymissvæði eru fjölbreyttar námsaðstæður þar sem unnið er með mismunandi samsetta nemendahópa eða einstaklinga, allt eftir þörfum hvers og eins nemanda. Fjölbreyttir og sveigjanlegir kennsluahættir með tengingu við list-, verkgreinar, hreyfingu og lífsleikni eru lykilatriði þegar komið er til móts við nemendur með mismunandi styrkleika.

Ábyrgð á námsaðlögun/einstaklingsnámskrá er í höndum sérkennara/þroskaþjálfa/ iðjuþjálfa í samstarfi við foreldra og umsjónarkennara en þegar um minniháttar aðlögun er að ræða er hún í höndum umsjónarkennara/faggreinakennara. Foreldarar koma að áherslum í námsáætlunum. Einstaklingsáætlun er metin að vori í kennsluskýrslu þar sem allir þættir hennar eru metnir. Að því loknu er lögð fram ný áætlun fyrir haustið.

Huga þarf að námsþörfum, námsstílum, líðan, sjálfsmynd og sjálfstrausti nemenda. Megináherslan er á að námsframboðið styrki, efli og hvetji nemendur til dáða.