Skylduvalgreinar

Valgreinar eru hluti af skyldunámi. Notast er við hugtakið skylduvalgreinar. Í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar til allt að fimmtungi námstímans. Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.

Eitt af hlutverkum skólaráðs er að fjalla um stefnumótun og sérkenni skóla og þar með framboð valgreina í grunnskóla. Við ákvörðun um framboð og fjölbreytni valgreina er mikilvægt að taka mið af staðháttum, menningu og sögu nærsamfélagsins. Val í námi skal miða að skipulegum undirbúningi fyrir nám í framhaldsskóla og taka mið af undirbúningi fyrir bóknám, starfsmenntun, verknám og list- og tækninám.

Að ósk foreldra er heimilt að meta sem nám tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífi og reglubundna þátttöku í félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi enda falli það að markmiðum skólastarfs. Einnig er heimilt að meta skipulagt nám, sem stundað er utan grunnskóla, til valgreina, t.d. nám við framhaldsskóla, listaskóla og málaskóla.

Í sumum valgreinum er miðast við lágmarksfjölda nemenda. Nemandi velur sér valgreinar til áramóta og velur sér aftur til vors. Val nemanda er bindandi. Það er mikilvægt að halda vel utan um skyldunám nemenda. Framboðið er mikið og geta nemendur valið milli um 20-30 mismunandi valkosta. Hver nemandi þarf að hafa a.m.k. eina list- og verkgrein í sínu vali. Námskrá gerir ráð fyrir að allt að helmingur valstunda sé bundinn list- og verktengdu námi.