Réttur og ábyrgð nemenda

Réttindi
Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Grunnskóli skal í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá.

Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila. Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af til þess bærum sérfræðingum. (13. gr. grunnskólalaga, 12.06 2008) . Markmið skólareglna er að efla góðan starfsanda og ábyrgð nemenda á námi sínu og hegðun. Nemendur eiga rétt á að starfa í skólanum við fyllsta öryggi og að fá að njóta hæfileika sinna. Því þurfa öll samskipti milli nemenda innbyrðis og við starfsfólk skólans að byggjast á gagnkvæmri virðingu og jákvæðum aga.

Ábyrgð
Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin. Ef hegðun nemanda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri (sbr. 32. gr. grunnskólalaga). Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla. Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrar samkvæmt lögum þessum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. (úr 14. gr. grunnskólalaga, 12.06 2008)

Jákvæður agi bætir kennslu og námsumhverfi skólans og eykur líkur á því að nemendur öðlist eðlileg viðmið varðandi sjálfsaga. Sjálfsagi og virðing fyrir lögum og reglum stuðlar að auknum rétti einstaklinga. Engum er heimilt með óæskilegri og truflandi hegðun að skerða rétt annarra til náms og starfa í skólanum. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans í öllu sem skólann varðar.