Jákvæður agi

Í starfi okkar leggjum við til grundvallar uppeldisstefnu sem nefnist “Positive discipline” eða Jákvæður agi. Stefnan byggir á “sjálfsstjórnarkenningu”, sem felur það í sér að horft er á orsakir hegðunar og það gildismat sem býr að baki þegar leitast er við að ná fram leiðréttingu, frekar en að reyna einfaldlega að breyta hegðuninni með umbun og refsingu. Hugmyndafræðin “jákvæður agi” gengur út á, að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju og byggist á gagnkvæmri virðingu, reisn, vinsemd og festu. Við leitumst við að fá nemendur til að tileinka sér þrjú viðhorf og fjórar tegundir af hæfni. Þessir hlutir eru m.a. kenndir og þjálfaðir markvisst með bekkjarfundum.
Þetta eru: 

Viðhorf

 • Sjálfstraust. (Viðhorf nemanda: "Ég get") Til að þróa með sér sjálfstraust þurfa nemendur öruggt andrúmsloft þar sem þeir geta prófað sig áfram með nám og hegðun án þess að felldir séu harðir dómar um velgengni eða mistök, rétt eða rangt. Bekkjafundir geta búið til öruggt umhverfi þar sem nemendur geta mátað hegðun sína í umburðarlyndu andrúmslofti, uppgötvað hvernig hún snertir aðra og kannað möguleika á breytingum.
 • Að tilheyra. (Viðhorf nemanda: "Ég tilheyri og mín er þörf"). Til að öðlast tilfinningu fyrir mikilvægi í samfélaginu þurfa nemendur að upplifa að deila tilfinningum, hugsunum og hugmyndum með öðrum og að þær séu teknar alvarlega. Á bekkjafundum hafa allir tækifæri til að láta sínar skoðanir og tillögur í ljós. Nemendur læra að þeir geta lagt sitt af mörkum við að finna lausnir og geta fylgt völdum lausnum eftir á áhrifaríkan hátt.
 • Áhrif. (Viðhorf nemanda: "Ég hef áhrif á umhverfi mitt og líf"). Til að nemendur öðlist tilfinningu fyrir áhrifum og valdi yfir þeirra eigin lífi, þurfa þeir að upplifa umhverfi sem leggur áherslu á áreiðanleika og hvatningu. Bekkjarfundir búa til aðstæður þar sem nemendur geta upplifað að það sé í lagi að gera mistök og að hægt sé að læra af þeim. Á bekkjarfundum geta nemendur lært að það er í lagi að taka ábyrgð á mistökum sínum því að þeir verða ekki dæmdir en fá þess í stað aðstoð við að kanna möguleika til að læra af þeim. Þeir læra að hætta að kenna öðrum um (kennarinn gaf mér F) og fallast á eigin ábyrgð (ég fékk F af því að ég kláraði ekki verkefnið svo ég fengi hærri einkunn). Þeir læra einnig að þó þeir geti ekki stjórnað öllu sem gerist geta þeir stjórnað eigin viðbrögðum við því sem gerist.

Hæfni

 • Innsæi/tilfinningagreind. Hæfni nemanda til að skilja tilfinningar og að geta notað þann skilning til að þróa sjálfsaga, sjálfsstjórn og að læra af reynslunni. Bekkjarfundir hjálpa nemendum að gera greinarmun á tilfinningum og athöfnun/afleiðingum athafna. Þeir læra að þær tilfinningar sem þeir upplifa (reiði) er annað en aðgerðir (lemja einhvern) og að tilfinningar eru alltaf eðlilegar og ásættanlegar þó að vissar aðgerðir séu það ekki. Þeir læra að nota "ég-boð" um tilfinningar sínar og að nota mismundandi leiðir til að tjá og fást við tilfinningarnar. Á bekkjarfundum virðast nemendur vera fúsari að hlusta hver á annan en á fullorðna. Þeir gefa hvor öðrum endurgjöf sem hjálpar þeim að þróa með sér sjálfsaga og sjálfsstórn og að læra af reynslunni.
  • Samskiptahæfileikar. Hæfni nemenda til að vinna með öðrum með góðum samskiptum, skipulegri samvinnu, samningum, virkri þátttöku, hlustun og samhygð. Bekkjarfundir gefa frábært tækifæri fyrir nemendur til að þróa samskiptahæfni sína með samræðum og með því að deila skoðunum, reynslu og tilfinningum. Með því að hlusta og setja sig í spor annarra, vinna saman, semja um lausnir og hjálpast að við að leysa deilumál. Í stað þess að blanda sér í og leysa málin fyrir nemendur geta kennarar bent á að málin séu sett á dagskrá bekkjafunda svo þeir geti saman fundið lausnir sem allir græða á.
  • Ábyrgð. Hæfni nemenda til að bregðast við takmörkunum og afleiðingum í daglegu lífi með ábyrgð, aðlögunarhæfni, sveigjanleika og heiðarleika. Bekkjarfundir gefa nemendum tækifæri til að greina atburði og reynslu, að kunna skil á afleiðingum og valkostum, og æfa sig á að velja ábyrga kosti. Þetta dregur úr vonbrigðum og óþoli, reiði og tilhneigingum til að sýna óæskilega hegðun.
  • Dómgreind. Hæfni nemenda til að nýta reynslu sína og þekkingu til að meta aðstæður og aðgerðir með hliðsjón af réttu gildismati. Nemendur þróa með sér góða dómgreind þegar þeir hafa tækifæri og hvatningu til að æfa sig í að meta kosti og taka ákvarðanir í umhverfi sem leggur áherslu á viðleitnina til að gera betur. Þetta er prýðileg lýsing á því hvað gerist á áhrifaríkum bekkjarfundi. Of margir fullorðnir búast við að nemendur þrói með sér dómgreind án þess að þeir fái tækifæri til að æfa sig, gera mistök, læra og reyna aftur. Reglulegir bekkjarfundir gefa nemendum góðan tíma til þess.

Bekkjarfundir eru grundvallaratriði í framkvæmd stefnunnar því að þar fá nemendur tækifæri til að æfa framangreind atriði í öruggu umhverfi. Því er lögð mikil áhersla á að kenna rétta framkvæmd þeirra, þeir séu haldnir eftir settum reglum og nægilega oft.

Í framkvæmd bekkjarfundanna er lögð áhersla á eftirfarandi:

 • Við myndum hring.
 • Við veitum hrós og viðurkenningar.
 • Við vinnum skv. ákveðinni dagskrá.
 • Við þróum samskiptahæfnina með æfingum.
 • Við lærum um mismunandi skynjun / veruleika.
 • Við lærum um fjórar ástæður þess að fólk gerir það sem það gerir.
 • Við æfum hlutverkaleiki og hugstormun.
 • Við einbeitum okkur að lausnum án refsinga.

Stefnunni fylgja einnig fleiri atriði eins og að starfsmenn læri að skilja ástæður óæskilegrar hegðunar nemenda, að samskipti þeirra við nemendur séu hvetjandi, að byggt sé upp traust og gott samband milli heimila og skóla, að starfsmenn vinni saman í teymum og hjálpist að við að finna lausnir á vandamálum sem upp koma, og síðast en ekki síst gerir hugmyndafræðin ráð fyrir að kennarar tileinki sér fjölmargar hagnýtar aðferðir við bekkjarstjórnun en þær eru eftirfarandi:

 • Að gefa nemendum ákveðna valkosti.
 • Að fela nemendum ákveðin verkefni eða ábyrgð í skólanum / kennslustofunni.
 • Þrautalausnir.
 • Eftirfylgni með virðingu og reisn.
 • Spyrja (ekki segja) "hvað", hvers vegna" og "hvernig".
 • Leiðbeinandi spurningar.
 • Gera ekkert (augljósar afleiðingar).
 • Ákveða hvað við gerum.
 • Segja NEI með virðingu og reisn.
 • Framkvæma meira - tala minna.
 • Setja alla í sama bátinn.
 • Jákvæð einvera nemenda.

Áhugasamir geta nálgast frekari upplýsingar t.d. á eftirfarandi vefslóðum:

http://www.posdis.org/

http://www.positivediscipline.com/