Átakanlegur Þjóðleikur

Nemendur í Tjaldinu.
Nemendur í Tjaldinu.

Ein af skylduvalgreinum að þessu sinni fyrir unglingana okkar var leiklist. Borgarhólsskóli var í samstarfsverkefni við Þjóðleikhúsið. En leiklistarverkefnið Þjóðleikur, sem Þjóðleikhúsið hleypti af stokkunum fyrir rúmum tíu árum, hefur vaxið og dafnað ár frá ári. Markmiðið var frá upphafi skýrt og hefur ekkert breyst: Að tengja Þjóðleikhúsið á lifandi hátt við ungt fólk, 13-20 ára, í landsbyggðunum og efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu.

Þjóðleikhúsið gefur skólum kost á að velja leikverk til að setja upp með skírskotun til samtímans en áhugavert og skemmtilegt í senn. Leiðbeinandi í leiklist er Karen Erludóttir sem jafnframt var leikstjóri. Um fimmtán nemendur völdu leiklist sem skylduvalgrein og völdu þeir verkið Tjaldið. Þar er alvarlegur undirtónn þar sem stúlku er nauðgað á útihátíð, áfengi haft um hönd, málið vindur upp á sig, á að kæra eða ekki kæra. Í verkinu var notast við ljótt orðbragð og tekist á við alvarlegt málefni og viðkvæmt. Auk þess að leika sjá nemendur sjálfir um förðun, tæknimál og fleira. Skólinn þakkar nemendum og leikstjóra fyrir ákaflega góða sýningu og góða uppskeru.


Athugasemdir