Útikennsla í blíðskaparveðri

Sumarið í ár hefur ekki verið upp á marga fiska og engu líkara en að í kjölfar besta sumars í manna minnum á síðasta ári; hafi verið tekið upp kvótakerfi yfir sólarstundir. Gæða sólarstundir hafa enda aðeins verið á færi þeirra sem geta sótt þær á fjarlægari mið þetta sumarið.

Sumarið lét þó loks sjá sig í byrjun vikunnar og í gær þriðjudag voru veðurgæði á við það sem best gerðist síðasta sumar.

Við í Borgarhólsskóla trúum á heilbrigða nýtingu verðmæta og því voru veðurgæðin nýtt til hins ýtrasta. Gærdeginum var að mestu leyti varið úti í blíðunni við leik og störf.

Síðastliðinn mánudagur var svokallaður höfuðdagur. Íslensk hjátrú segir að veður á þeim degi vari í þrjár vikur. Það stóðst ekki alveg en veður hefur verið með ágætum það sem af er skólaári. Í upphafi þessarar viku nýttu nemendur og starfsfólk til útikennslu og -veru.

Nemendur Frístundar hafa varið tíma sínum úti við og farið í ýmsa leiki. Nemendur þriðja bekkjar fóru í Skrúðgarðinn að kanna liti og plöntuskoðun. Þeir söfnuðu saman efni til að vinna frekar með í hópum í garðinum. Lítil dauð mús vakti áhuga nemenda og því var unnið verk í kringum hana. Markmiðið var samvinna og að búa til mynstur úr óhefðbundnu efni og velta fyrir sér litum sem náttúran hefur upp að bjóða þann daginn.

Nemendur fjórða og fimmta bekkjar fóru í náttúruskoðun og greindu plöntur. Þeir skrifuðu um plönturnar og verður sú vinna hengd upp á svæði nemenda. Nemendur sjötta og sjöunda bekkjar voru í leikjum við skólann og fóru í útibingó.

Nemendur unglingastigs nutu samveru í veðurblíðunni í Skrúðgarðinum. Brugðið var á leik, keppt í krokket, kubb, boccia og frisbídiskum kastað. Önnur kusu að flatmaga í sólargeislunum og enn önnur kusu að kæla sig í Búðaránni.


Athugasemdir