Bókaklúbbar, orð vikunnar og spurningar

Skólasafn Borgarhólsskóla er vel búið safn. Þar er að finna fjölbreytt úrval bóka og spila. Mikil áhersla er á barna- og unglingabækur í mismunandi erfiðleikastigum ásamt góðu úrvali af skáldsögum fyrir fullorðna. Einnig er að finna fjölda fræðibóka af ýmsu tagi.

Nýjar bækur eru keyptar reglulega og nemendur geta því fengið að lesa það allra nýjasta hverju sinni. Á safninu eru líka tölvur sem hægt er að nýta í kennslu, verkefnavinnu eða í leik.

Í Borgarhólsskóla er sannarlega fjölmenning. Á safninu má finna sautján þjóðfána sem tákna uppruna nemenda og starfsfólks skólans. Af þessu sést að í skólanum eru margir af ólíkum uppruna sem koma frá mismunandi menningarheimum og með fjölbreyttan bakgrunn.

Í hverri viku kemur upp spurning vikunnar og geta nemendur svarað og lent í potti. Dregið er í lok vikunnar og fær einn heppinn viðurkenningu. Hefur þetta vakið mikla lukku og eru nemendur duglegir að koma og spreyta sig á réttu svari.

Vikulega er líka valið orð vikunnar þar sem eitt orð er tekið fyrir og útskýrt í máli og myndum.

Í haust var sú nýbreytni að byrjað var með bókaklúbba á safninu. Nemendur velja sér þá þann klúbb sem þeir vilja. Lesa bækur úr þeim bókaflokki og allt er skráð á þar til gert blað. Þegar nemandi hefur lokið við að lesa þær bækur sem eru í viðkomandi klúbbi fær hann viðurkenningarskjal. Þetta hefur verið vinsælt og margir nemendur að taka þátt.

Öll eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á safninu sem er opið alla daga á meðan kennsla fer fram í skólanum.

Margir nemendur koma á safnið daglega ýmist til að taka bækur, spila, setjast niður og lesa eða bara til að spjalla. Það er jákvætt að fá nemendur á safnið og eru krakkarnir alltaf velkomnir.


Athugasemdir