Breski sendiherrann boðar frábær störf framtíðarinnar

Sendiherra Breta á Íslandi, Dr. Bryony Mathew fyrir miðri mynd að spjalla við nemendur.
Sendiherra Breta á Íslandi, Dr. Bryony Mathew fyrir miðri mynd að spjalla við nemendur.

Í morgun fengum við góða heimsókn. Dr. Bryony Mathew tók nýlega við sem sendiherra Breta á Íslandi en hún boðaði komu sína í skólann til að kynna frábær störf framtíðarinnar. Hún hitti nemendur þriðja bekkjar á skólabókasafninu. Bryony hefur meðal annars starfað í sendiráði Bretlands í Peking í Kína, Phnom Penh í Kambódíu, auk þess að hafa gegnt ýmsum stöðum innan utanríkisráðuneytisins í London.

En Bryony er doktor í taugavísindum og einnig barnabókahöfundur. Nýlega gaf sendiráðið út bók hennar um störf framtíðarinnar á íslensku, bókin verður ekki til sölu heldur mun breska sendiráðið gefa prentuð eintök þeim bókasöfnum og skólum sem hafa áhuga á. Hún spjallaði við nemendur og skoðaði skólann. Í bók hennar er fjallað um möguleikana í framtíðinni, fjölbreytileika, að allir glíma við áskoranir og að við lærum á ólíkan hátt.

Við þökkum Bryony kærlega fyrir komuna og bókagjöfina.


Athugasemdir