Dagur íslenskrar náttúru

Það er árviss viðburður að nemendur skólans fari í lengri gönguferðir og njóti útiveru með skipulögðum hætti í upphafi hvers skólaárs. Verkefnið er liður í að fagna degi íslenskrar náttúru sem er haldinn 16. september ár hvert. Markmið göngudagsins falla vel að grunnþáttum menntunar í heilbrigði og velferð en þar er lögð áhersla á að leiðbeina nemendum um að temja sér heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi. Markvisst hreyfiuppeldi leggur grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri færni nemenda.

Nemendur fyrsta bekkjar fóru í fjöruferð í Stangarbakkafjöru og léku sér við Skipaflúð. Nemendur annars og þriðja bekkjar gengu upp á Neðri-Skálamel og að Skálatjörn. Síðan var gengið niður að Kofamel í gegnum skógræktina. Gangan var um fjórir kílómetrar og markmið að ganga vel um náttúruna og skilja ekkert rusl eftir.

Nemendur fjórða og fimmta bekkjar gengu áleiðis að Þorvaldsstaðarkötlum og áðu um stund við Katlavöll. Nemendur sjötta og sjöunda bekkjar héldu í suðurátt og snæddu nesti við hjallana á Hellumelum. Nemendur nutu náttúrunnar, tíndu ber ýmist í dalla eða beint upp í sig. Gengið til baka fram hjá Katlavelli og farið í knattspyrnuleik á Hólaravelli í Breiðulág. Ferðina var um sjö kílómetra löng og ljómandi gott dagsverk.

Nemendur áttunda, níunda og tíunda bekkjar héldu áleiðis austur fyrir Húsavíkurfjall meðfram Galtaskarðsbrúnum og inn í Krubb. Þaðan var haldið niður að Botnsvatni og til Húsavíkur aftur. Ferðin var um þrettán kílómetrar og ansi góð ganga. Allir nemendur mættu til baka í skólann í pyslupartý eftir góða útiveru og náttúruupplifun.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir