Jól í skókassa á leið til Úkraínu

Útdeiling á kössum í Úkraínu.
Mynd frá KFUM & KFUK.
Útdeiling á kössum í Úkraínu.
Mynd frá KFUM & KFUK.

Skólinn tekur venju samkvæmt þátt í verkefninu Jól í skókassa. Það markar gjarnan upphaf jólanna í skólanum. Það eru KFUM og KFUK samtökin sem halda utan um verkefnið. Verkefnið er alþjóðlegt og felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu. Í Úkraínu búa um 44 milljónir manna og víða stríðsástand. Atvinnuleysi þar var mikið fyrir innrás Rússa í landið og ástandið bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Nemendur skólans komu saman í teymum eða árgöngum með hinar ólíku gjafir og hluti til að pakka inn í kassana. Hverjum kassa er vandlega pakkað inn í jólapappír, þeim safnað saman og sendir suður til Reykjavíkur. Þaðan verður þeim komið til Úkraínu til bágstaddra og þeirra sem minna mega sín. Nemendur sendu 76 kassa í verkefnið og sýna með því samhug og kærleika í verki á hátíðarstundu.


Athugasemdir