Kynsegin eða hinsegin veruleiki

Mars Proppe, fræðari hjá samtökunum ´78
Mars Proppe, fræðari hjá samtökunum ´78

Fólk er allskonar. Veruleiki barna er annar en fullorðinna hvort sem litið er á samfélagsgerð, samfélagsmiðla eða tækni. Tíðarandinn breytist með hverri kynslóð og sú eldri þarf á hverjum tíma að fást við eigin fordóma. Norm er það sem samfélagið hverju sinni skilgreinir sem venjulegt eða dæmigert. Gagnkynhneigð er innan normsins á meðan aðrar kynhneigðir eru utan þess.

Viljum við vera í norminu eða utan þess?

Mikið hefur verið rætt og ritað um það hvort hópar sem standa utan normins eigi að berjast fyrir innlimun í það – þannig að ólíkar kynhneigðir og kynvitundir verði norm og að normið verði útvíkkað – eða hvort hópar utan normsins eigi að krefjast jafnréttis og virðingar þrátt fyrir að vera utan normsins. Þekking á hinsegin málum er grundvöllur mannréttindabaráttu samtakanna ´78 og því er fræðsla einn af hornsteinum samtakanna.

Að fást við fordóma?

Hluti af því að fást við fordóma er að fræða. Fyrr í vetur fór starfsfólk á fyrirlestur frá samtökunum ´78 um hinsegin, kynsegin, kynvitund, kynhyggju og fleiri grunnhugtök í hinsegin fræðum. Sömuleiðis var fjallað um kyneinkenni og kyntjáningu. Nemendur sjötta til tíunda bekkjar fengu fræðslu í dag frá ´78 og í seinna í dag býðst foreldrum fyrirlestur sömuleiðis.

Fræðarinn Mars Proppe hitti nemendur skólans í dag og fjallaði um ýmsilegt í veröld hinsegin fólks. Við erum öll eins og við erum. Börn og ungmenni eiga ávallt að eiga einhvern sem hlustar og jafnvel gefur ráð. Samtökin ’78 bjóða allar manneskjur velkomnar, óháð aldri. Að koma út, hugsa um að koma út, halda að maður sé hinsegin og aðrar vangaveltur eru fullkomlega eðlilegar.


Athugasemdir