Nemendur blóta Þorrann

Frá þorrablótinu í gærkveldi
Frá þorrablótinu í gærkveldi

Það er gott að halda í hefðir. Þorrablót eiga sér langa sögu á Íslandi og ánægjulegt að halda við þeim sið, læra um sögu og menningu með áherslu á mat og geymsluaðferðir á mat. Einn af föstu liðunum í skólanum er að nemendur áttunda bekkjar halda þorrablót. Hefð er fyrir því að nemendur bjóði foreldrum sínum og forráðamönnum á blótið. Vikan fyrir þorrablótið er nýtt til undirbúnings en blótið var haldið í gærkveldi með pompi og prakt.

Nemendum er skipt upp í nefndir í aðdraganda blótsins hvar þeir skipta með sér verkum samkvæmt erindisbréfi þar um. Skemmtinefnd sér um skemmtiatriði og hannar dagskrá ásamt veislustjórum sem stýra síðan samkomunni. Nemendur hanna aðgöngumiða og auglýsingar auk þess að óska eftir og sækja vinninga fyrir happdrætti. Tækni- og tónlistarnefnd sér um lagavalið á diskótek sem haldið er eftir gömludansaball, tryggir lýsingu og hljóð í salnum og fleira í þeim dúr. Einhversstaðar verða allir að sitja en nemendur í móttökunefnd raða í salinn, tryggja nægilegan sætafjölda og skipuleggja framkvæmd á gólfi. Til að hefja samkomuna upp þarf að skreyta salinn sem var hinn glæsilegasti.

Nemendur skipuleggja samkomuna sjálfir með aðstoð starfsfólks og það er alltaf ánægjulegt að taka þátt í uppskerunni, blótinu sjálfu, eftir góðan undirbúning. Nemendur fara í heimsókn í Norðlenska. Þar fá þeir leiðsögn um fyrirtækið og að smakka þorramatinn. Sumir voru duglegir að smakka á meðan aðrir fúlsuðu yfir bæði lykt og bragði. Við þökkum Norðlenska kærlega fyrir að taka á móti nemendum okkar og sýna þeim fyrirtækið. Það er afar mikilvægt að halda við og læra um menninguna á mat. Sömuleiðis þökkum við fyrirtækjum sem gáfu vinninga í happdrættið.

Í þorrablótsvikunni læra nemendur íslensk lög og hversdagssöngva sem eru gjarnan sungnir á þessum tíma árs. Sérstök áhersla er lögð á gömlu dansana en foreldrum er boðið að taka þátt í dansæfingu fyrir blótið. En á blótinu sjálfu er stiginn dans sem vekur allajafna mikla lukku bæði nemenda og foreldra.

Allt gekk glimrandi vel og nemendur stóðu sig með stakri prýði við undirbúning og eins á blótinu sjálfu. Foreldrar eru jafnan með skemmtiatriði þar sem sýndar eru gamlar fermingarmyndir. Auk þess sungu þeir og dönsuðu við lagið úr Bláa hnettinum, Prumpustuð. Eftir gömlu dansana var diskó og nýttu nemendur það sem eftir var orkunnar í það. Vel heppnað blót í alla staði.


Athugasemdir