Nemendur með íslensku sem annað tungumál

Undanfarin ár hefur fjölgað í hópi nemenda sem hafa íslensku sem annað tungumál. Tæplega einn af hverjum fimm nemendum skólans er með íslenskuna sem annað tungumál með einum eða öðrum hætti. Það eru 54 nemendur sem tala samtals fjórtán tungumál.

Í drögum að stefnu varðandi menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn kemur meðal annars fram að auknir fólksflutningar, alþjóðavæðing í menntun og á vinnumarkaði og aukinn fjöldi flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd í mörgum löndum hefur í för með sér breytingar og nýjar áskoranir, bæði fyrir einstaklinga og samfélögin í heild.

Ísland er hluti af þessari þróun en á stuttum tíma hefur samfélagið breyst frá því að vera tiltölulega einsleitt yfir í það fjölmenningarlega samfélag sem það nú er. Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarna tvo áratugi. Nú svipar hlutfalli þeirra af heildarmannfjölda til hinna Norðurlandanna. Þetta er þróun sem átti sér stað mun síðar hér en á hinum Norðurlöndunum. Árið 1995 var einungis 1,8% þjóðarinnar af erlendum uppruna. Í byrjun árs 2019 var sá hópur orðinn 14,1% eða 50.272 einstaklingar.

Það er verulegt áhyggjuefni að börnum með erlendan bakgrunn vegnar verr í íslensku skólakerfi en jafnöldrum þeirra. Þau upplifa frekar útilokun, vanlíðan og einangrun. Þau eiga mörg í erfiðleikum með að taka virkan þátt í samfélaginu, ráða síður við námskröfur og líklegri til að hætta í framhaldsskóla.

Nýlega var stofnað svokallað ÍSAT-teymi þriggja kennara við skólann, þ.e. teymi sem heldur utan um kennslu í íslensku sem annað tungumál með markvissari hætti en gert hefur verið. Þannig komum við til móts við fjölbreyttara samfélag en þessi hópur nemenda er síður en svo einsleitur og ber að varast að fjalla um hópinn sem slíkan.


Athugasemdir