Notar barnið þitt skóla­töskuna rétt?

Fræðslu- og kynningarnefnd Iðjuþjálfafélags Íslands sendi frá sér grein í dag varðandi notkun á skólatöskunni. Við hvetjum foreldra til að skoða skólatösku barna sinna reglulega og huga að þeim atriðum sem talin eru upp hér að neðan.

Nú eru skólarnir óðum að hefjast og flestir foreldrar farnir að huga að skólatöskum. Að velja og stilla töskuna rétt hefur mikilvægt forvarnargildi þegar kemur að heilsu og líðan barnsins. Ranglega stillt eða of þung skólataska getur valdið ýmsum álagseinkennum eins og bakverk, höfuðverk og vöðvabólgu.

Mikilvægt er að hafa í huga að börn beri ekki meiri byrði en 10% af eigin líkamsþyngd. Hér að neðan eru ráðleggingar iðjuþjálfa um hvernig best sé að velja, raða í og stilla skólatösku:

Að velja og stilla skólatösku:

  • Taskan þarf að vera í réttri stærð miðað við bak barnsins - ekki breiðari en efra bak né heldur má hún ná niður fyrir mjóbak.
  • Mikilvægt er að axlarólar séu bólstraðar og með smellu yfir bringu. Ávallt skal nota báðar axlarólarnar og stilla þannig að taskan liggi þétt að baki.
  • Notið mittisólina ef hún er fyrir hendi, hún dreifir þunga töskunnar jafnt á líkamann.

Að raða í skólatösku:

  • Mikilvægt er að foreldrar aðstoði börn sín við að raða í skólatöskuna til að koma í veg fyrir álagseinkenni og stoðkerfisverki.
  • Setjið þyngstu hlutina sem næst baki.
  • Raðið þannig í töskuna að hlutirnir séu stöðugir og renni ekki til.
  • Farið daglega yfir það sem þarf að vera í töskunni, einungis ætti að bera það nauðsynlegasta.
  • Setjið sund- og íþróttaföt ofan í skólatöskuna í stað þess að hengja íþróttapoka yfir hana.

Athugasemdir