Siglt á Skjálfanda og tekið land í Flatey

Nemendur tíunda bekkjar fram í stefni
Nemendur tíunda bekkjar fram í stefni

Það er löng hefð fyrir því að Norðursigling bjóði nemendum skólans í siglingu um Skjálfandaflóa að haust- eða vorlagi. Nemendur áttunda, níunda og tíunda bekkjar bauðst að fara í siglingu í dag og taka land í Flatey. Farið var á tveimur bátum, Bjössa Sör og Náttfara. Á leið vestur yfir flóa sást í hnúfubak sem hópurinn elti um stund en tók svo stímið á Flatey. Það gaf eylítið á bátinn en nemendur stóðu sig afar vel.

Í eynni var sæluveður, létt og hlý gola úr suðri og auðvelt að gleyma sér. Hópurinn fékk sér nesti í Samkomuhúsi þeirra eyjaskeggja og gengu svo að vitanum þar sem hæsti punktur eyjarinnar er. Útsýnið í vitanum er skemmtilegt og hægt að sjá yfir alla eyjuna. Þeir nemendur sem eiga tengsl við eyjuna og húsin þar tóku stöðuna á sínum eignum og hópurinn hitti sömuleiðis fólk sem hefur í dvalið í eyjunni síðan í byrjun septembermánaðar.

Eftir notalega stund í eyjunni var haldið heim til Húsavíkur á lágdauðum sjó að mestu. Nemendur fengu heitt kakó og kanilsnúð sem gladdi. Nemendur komu sælir að bryggju og þökkuðu vel og vandlega fyrir sig. Við viljum færa Norðursiglingu bestu þakkir fyrir rausnarlegt og gott boð.

Myndir úr ferðinni má sjá HÉR.


Athugasemdir