Skólalok skólaársins 2018 – 2019

Skólaslit í Íþróttahöllinni
Skólaslit í Íþróttahöllinni

Síðastliðinn föstudag lauk skólaárinu 2018 – 2019  í Íþróttahöllinni síðla dags í sól og blíðu. Nemendur fyrsta til og með níunda bekkjar komu saman til að hlýða á ræðu Þórgunnar Reykjalín skólastjóra, hitta umsjónakennarana sína og fá vitnisburð skólaársins.

Skólastjóri hóf mál sitt á því að bera saman samfélagið Húsavík og Borgarhólsskóla. Taldi hún hvoru tveggja vera öflug samfélög með mikla og fjölbreyta þjónustu. Skólastjóri minntist Kristjönu Ríkeyjar Magnúsdóttur, kennara, sem lést á árinu og lét hlý orð falla í minningu hennar.

Þórgunnur  fór yfir starfsemina í skólanum enda veitt fjölbreytt þjónusta og mikil þekking að baki henni. Skólastjóri taldi upp nokkra viðburði ársins, bæði árvissa og þá sem bar að garði að þessu sinni; Hvalaskóla, nemendaferðir, skólasamkomu, uppsetningu á leikritum, söngsali, þorrablót, árshátíð, útivistardaga, upplestrarkeppnir, starfamessur og svona mætti lengi telja. Í öllu þessu má finna persónulega sigra, hér er leitað að sterkum hliðum hvers og eins og þannig blómstra nemendur.

Þórgunnur gerði leyfi nemenda frá skóla að umtalsefni en mikil umræða hefur verið um skólasókn eða skólaforðun grunnskólabarna. Málið hefur ratað inn á borð Stjórnarráðs Íslands og til löggjafans sem setur lög um skólaskyldu. Góð skólasókn er ákaflega mikilvæg og hefur sitt að segja varðandi velgengni í námi. Skólinn á að ganga fyrir, námið er vinna nemenda, afrakstur námsins eru þeirra laun. Foreldrar voru hvattir til að halda fjarveru nemenda í lágmarki.

Skólapúlsinn er ákveðið mælitæki á skólastarf og hvatti Þórgunnur foreldra til að kynna sér niðurstöður hans á heimasíðu skólans og sömuleiðis að taka þátt þegar hann er lagður fyrir skólasamfélagið. Samkvæmt Skólapúlsinum er skólinn vel undir landsmeðaltali þegar kemur að tíðni eineltis og hefur sú prósentutala lækkað síðastliðin ár. Þá vitnaði skólastjóri í svör bæði nemenda og foreldra sem koma fram í niðurstöðum. Í niðurstöðum má finna að 93% foreldrar telja að barni sínu líði almennt mjög vel í skólanum og foreldrar í Borgarhólsskóla virðast almennt aðeins ánægðari með skólann sinn en landsmeðaltal segir. Sem dæmi eru foreldrar ánægðari með þætti eins og hversu mikil áhrif þeir geti haft á ákvarðanir og hversu mikið er gert við ábendingar þeirra, heimasíðu, mötuneyti, frumkvæði kennara til samstarfs og þeir  telja sig vel upplýsta um stefnu skólans.

Skólastjóri fór þær framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í skólanum og á skólalóðinni.

Þórgunnur þakkaði foreldrum það traust sem þeir bera til skólans og þann stuðning sem skólinn á vísan í foreldrasamfélaginu. Jafnframt færði hún foreldrum þakkir fyrir endurreisn Foreldrafélags skólans en á þeim vettvangi eru mikil sóknarfæri.

Marinó Þorsteinsson úr fjórða bekk las frumsamda sögu fyrir samkomuna og Sigurður Helgi Brynjólfsson úr sjöunda bekk las upp ljóð eftir langafa sinn sem hann flutti einmitt í Stóru upplestrarkeppninni í mars síðastliðnum. Nemendur fyrsta og annars bekkjar sungu skólasönginn fyrir gesti.

Að lokum fór Þórgunnur yfir námsmat og námsmatsaðferðir. En mikil umræða er um námsmat og breytingar á því til að koma hæfni nemenda betur til skila og gefa foreldrum skýrari mynd af stöðu barns síns. Skólinn vinnur áfram þróunarstarf í þessum efnum til samræmis við aðalnámskrá grunnskóla.

Skólastjóri þakkaði Kvenfélagi Húsavíkur framlag til skólans en það er mikilvægt fyrir skólann að eiga velunnara. Sömuleiðis þakkaði Þórgunnur öllum þeim sem koma að skólastarfinu fyrir samstarfið. Í lok athafnar fengu nemendur afhentan vitnisburð sem hver og einn notar til að styrkja sjálfan sig, hvar má gera betur og hver staða viðkomandi er út frá hæfni.

Þórgunnur óskaði öllum gleðilegs sumars og hamingjuríkra daga.

Marinó úr fjórða bekk les fyrir gesti.

Sigurður Helgi les ljóð fyrir gesti.

Nemendur fyrsta og annars bekkjar syngja skólasönginn

Nemendur fyrsta bekkjar voru sælir og glaðir í tilefni dagsins.

Nemendur fengu vitnisburði skólaársins.

 


Athugasemdir