Skólamötuneyti Húsavíkur

Þau Dagný Þóra, Christina, Fannar Emil, Roma og Mikael í eldhúsinu.
Þau Dagný Þóra, Christina, Fannar Emil, Roma og Mikael í eldhúsinu.

Í upphafi nýs skólaárs 2006 tók mötuneyti til starfa við Borgarhólsskóla. Það var þá staðsett á Hótel Húsavík sem er við hlið skólans. Með viðbyggingu við skólann 2013 hófst rekstur skólamötuneytis þar sem nemendur matast í gamla íþróttasalnum sem er sömuleiðis menningarsalur. Árið 1995 var sett í grunnskólalög að nemendur skyldu eiga kost á máltíð á skólatíma.

Í Skólamötuneyti Húsavíkur starfa fimm einstaklingar í rúmlega fjórum stöðugildum. Þar er framreiddur matur fyrir rúmlega 500 manns sem eru á Grænuvöllum, Borgarhólsskóla og Stjórnsýsluhúsinu á Húsavík. Auk þess hafa framhaldsskólanemar getað keypt þjónustu í mötuneytinu en vegna sóttvarnarreglna hefur það ekki gengið síðastliðna mánuði.

Í mötuneytinu eru mikil reynsla. Fannar Emil Jónsson er yfirmaður mötuneytisins en hann er matreiðslumeistari. Hann nam sveinspróf á VOX veitingahúsi, Hilton hótel Reykjavík og hefur fimmtán ára reynslu af eldhússtörfum. Dagný Þóra Gylfadóttir er nýútskrifaður matartæknir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og hefur starfað í eldhúsum síðastliðin fimmtán ár. Mikael Þorsteinsson er matreiðslumaður að mennt og hóf matreiðslunám árið 2008 veitingahúsinu Silfur á Hótel Borg. Hann hefur starfað á veitingastöðum frá árinu 2008. Cristina Anit Guðmundsson hefur starfað í eldhúsinu á Grænuvöllum síðan árið 2013. Roma Adeoti hóf störf í mötuneytinu haustið 2020.

Það er markmið að matur sé búinn til frá grunni eins og kostur er. Þannig verður til meiri þekking á innihaldi þess sem boðið er upp á. Sömuleiðis er áhersla lögð á að versla hráefni sem kemur úr nærumhverfi Húsavíkur. Það styrkir innviði heimabyggðar og minnkar kolefnisfótspor mötuneytisins. Allt í kringum okkur er frábært hráefni í boði og úrval framleiðenda.

 

Matseðillinn tekur mið af lýðheilsumarkmiðum Landlæknisembættis og er ekki vikið frá því. Matseðillinn er fjölbreyttur og er fiskur á boðstólnum tvisvar í viku. Að morgni hvers skóladags er hafragrautur í boði og ávaxtastund sem millimál. 


Athugasemdir