- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
Skólastarf hófst í Borgarhólsskóla í dag. Íslenski fáninn við hún og nemendur mættu á Borgarhólinn í morgun ásamt foreldrum sínum. Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, skólastjóri hélt tölu á stuttri athöfn í Sal skólans ásamt Guðna Bragasyni, skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur. Þórgunnur þakkaði félagasamtökum sem hafa sýnt skólanum velvilja með peningagjöf. Kvenfélag Húsavíkur færði skólanum hálfa milljón að gjöf sem er ætlað að verja til húsgangakaupa fyrir nemendur og Lionsklúbbur Húsavíkur sem gaf skólanum 250 þús. kr. til tölvu og tæknimála.
Tilveran færist nú í fastari skorður og fram undan tími sem á að einkennast af reglu og staðfestu, uppbyggingu, samvinnu og gleði. Jákvæðni skilar miklu meiru og bæði tækifæri og lausnir eru allt um kring ef við gefum okkur tíma til að leita. Þórgunnur sagði að það væri okkar eigin hugarfar sem skipti öllu máli. Hún bætti við að ef skólaandinn byggir á lífsgleði, vellíðan og uppbyggilegri gagnrýni allra er allt hægt.
Það eru 282 nemendur skráðir í skólann sem er rúmlega 5% fækkun frá fyrra ári. Það helgast meðal annars af því að fjölmennur árgangur útskrifaðist síðastliðið vor og fámennari hefur nú skólagöngu sína í fyrsta bekk. Hóp starfsfólks skipa 62 einstaklingar í mismunandi starfshlutföllum. Þórgunnur bauð nemendur fyrsta bekkjar velkomna í skólann. Sömuleiðis nýja nemendur sem hefja nám við skólann. Hún bauð foreldra sérstaklega velkomna í skólann og sagði að það væri tilhlökkunarefni að vinna með þeim að velferð barnanna á komandi skólaári og bætti við að við berum sameiginlega ábyrgð á velferð þeirra þó höfuðábyrgðin væri alltaf foreldranna. Þórgunnur hvatti foreldra til að vera í góðu samstarfi við skólann og bauð þá velkomna í skólann til að spjalla og skoða skólastarfið.
Borgarhólsskóli er með uppeldisstefnuna Jákvæður agi sem heldur utan um hvernig við högum samskiptum okkar. Teymiskennsla verður áfram í mótun sem og samþætting námsgreina og þemanám. Þórgunnur sagði að stefna skólans sé að vera framúrskarandi skóli og markmið að halda áfram á þeirri vegferð og vinnum að því að uppfylla öll þau viðmið sem til þarf og nýtum rannsóknir um skólastarf okkur til framdráttar.
Þórgunnur bað foreldra að gera einelti, ofbeldi hvers konar og samskipti að umtalsefni heima við og láta skólann vita ef grunur vaknar um einelti, ofbeldi eða flókin samskipti milli nemenda. Við eigum að hjálpast að og aðstoða hvert annað. Engin á að líða þær sálarkvalir sem af einelti hlýst.
Til að árangur náist þarf að huga að öllum hornsteinum skólastarfs; nemendum, foreldrum, starfsfólki og fræðsluyfirvöldum og límið er samstaða okkar allra og samheldnin. Við sjálf, öll sem tilheyrum skólasamfélaginu sköpum skólabraginn. Það er hlutverk okkar að gera góðan skóla betri með virðingu, skilningi, samvinnu og ákvæðni gagnvart hvert öðru og gleði. „Beinum orku okkar í að gera alltaf okkar besta fyrir okkur sjálf og náunga okkar“, sagði Þórgunnur að lokum.
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |