Skólinn iðar af lífi á ný – skólaárið hafið

Börn bregða á leik, spark í bolta, hlátrasköll og heljarstökk á ærslabelgnum. Já, nýtt skólaár er hafið og skólinn iðar af lífi. Hér eru allir í mismunandi störfum og allir hafa sín hlutverk. Við erum öll hluti af skólasamfélaginu. Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, sem leysir Þórgunni Reykjalín af sem skólastjóri bauð foreldra, nemendur og starfsfólk velkomin til starfa.

Ada hvatti hvern og einn til að hugleiða hvernig við gerum þetta skólaár frábært fyrir alla. Þar hafa allir hlutverk og þurfa að huga að sjálfum sér fyrir þær áskoranir sem komandi skólaár býður upp á. Sömuleiðis þarf hver og einn að huga að heilsu og líðan annarra svo öllum geti liðið vel og allir fái tækifæri til að þroskast og eflast.

Ada bauð nemendur fyrsta bekkjar velkomna en það er í senn krefjandi og skemmtilegt verkefni að hefja skólagöngu í grunnskóla. Þá bauð hún nýja nemendur úr öðrum skólum sérstaklega velkomna til okkar í Borgarhólsskóla.

Hún benti á að skólinn er íslenskuvænn vinnustaður allra. Við ættum og eigum öll að leggja okkur fram að aðstoða nýja nemendur að ná tökum á tungumálinu. Það gerum við best með því að tala íslensku; hægt og skýrt, vera tillitssöm og bera virðingu fyrir því að nemendur með íslensku sem annað tungumál eru að læra og gera sitt besta.

Foreldrar eru sterkustu bandamenn skólanna. Starfsfólk skólans vinnur með foreldrum að hagsmunum nemenda og þróun skólastarfs. Þá sé mikilvægt að foreldrar sýni námi barna sinna áhuga, tileinki sér jákvæðni og styðji skólann okkar.

Við skólann starfa 64 einstaklingar í mismunandi starfshlutföllum. Tólf nýjir starfsmenn hefja störf núna við skólann. Það er áhersla okkar að skólastarf sé með sem hefðbundnustum hætti fyrir börnin. Þá verður að fara fyrirmælum yfirvalda varðandi sóttvarnir; þvo hendur og spritta. Utanaðkomandi einstaklingum sem koma inn í bygginguna ber skylda til að hafa andlitsgrímu fyrir vitum sér.

Í upphafi skólaárs kemst á rútína sem margir fagna. Suma nemendur getur kviðið fyrir að mæta í skólann. Ada ræddi um að einelti og ofbeldi líðist ekki í skólanum. Hér eigi allir að eiga öruggt athvarf. Þá hvatti hún foreldra til að ræða opinskátt um einelti heima fyrir og virði vináttunnar sömuleiðis. Enginn ætti að líða þær sálarkvalir sem af einelti hlýst.

Að lokinni skólasetningu gengu nemendur inn í skólann og hittu umsjónarkennara sína. Við hlökkum til skólaársins.

 

 

 

 


Athugasemdir