Strákar og hjúkrun

Drengir í níunda bekk fóru í heimsókn í Háskólann á Akureyri í dag en tilgangur heimsóknarinnar var að kynna hjúkrunarfræðinám fyrir drengjum. Verkefnið er samvinnuverkefni Jafnréttisnefndar Landspítala, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Tilgangurinn er að kynna fjölbreytt starf hjúkrunarfræðinga með lifandi, raunhæfum og skemmtilegum hætti.

Boðið var upp á hádegismat að lokinni kynningu. Drengirnir voru ánægðir með ferðina og lærðu nýja hluti. Rannsóknir sýna að blandaðir vinnustaðir skila bestum árangri og starfsfólki líður betur. Grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir skort á hjúkrunarfræðingum í framtíðinni. Laun og vinnuaðstæður skipta miklu máli, en jafnframt þarf að grípa til sértækari aðgerða eins og að sýna fram á og kynna að hjúkrun henti öllum kynjum. Frá stofnun hjúkrunarfræðideildar HA hefur hlutfall brautskráðra karlkyns hjúkrunarnema við HA verið 2,1% sem er í takt við hlutfall íslenskra hjúkrunarfræðinga sem eru karlkyns (2%).


Athugasemdir