Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Lesarar í undankeppinni
Lesarar í undankeppinni

Í gær fór fram undankeppni skólans vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Verkefnið sjálft hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Fimmtán nemendur 7. bekkjar öttu kappi í upplestri. Það eru Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem standa fyrir keppninni á landsvísu en umsjón með verkefninu er í höndum skólaskrifstofa í hverju héraði.

Markmið með upplestrarkeppni er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni.

Í keppninni voru lesarar þau, Agnar Kári Sævarsson, Ásdís María Freysdóttir, Brynja Kristín Elíasdóttir, Gestur Aron Sörensson, Herdís Mist Kristinsdóttir, Hrefna Björk Hauksdóttir, Karítas Embla Kristinsdóttir, Katla Marín Þorkelsdóttir, María Dís Gústafsdóttir, Paul Nilca, Rakel Hólmgeirsdóttir, Sigurður Helgi Brynjúlfsson, Sævar Örn Guðmundsson, Þorsteinn Sveinsson og Þórdís Kristin O'Connor.

Það er ánægjulegt að um helmingur nemenda tók þátt í þessari undankeppni auk þess sem þetta er í fyrsta skipti sem nemandi með íslensku sem annað tungumál tekur þátt. Jafnframt var það ánægjulegt að nokkrir nemendur lásu ljóð sem er samið innan fjölskyldunnar.

Fulltrúar skólans í lokakeppninni sem fram fer 8. mars næstkomandi verða þau Gestur Aron, Karítas Embla, Katla Marín, Sigurður Helgi og Þórdís Kristin.


Athugasemdir