Undankeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í vikunni fór fram undankeppni skólans vegna Stóru upplestrarkeppninnar. Verkefnið sjálft hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember. Tíu nemendur 7. bekkjar öttu kappi í upplestri en keppnin fór fram í Sal skólans.

Það eru Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn sem standa fyrir keppninni á landsvísu en umsjón með verkefninu er í höndum skólaskrifstofa í hverju héraði.

Markmið með upplestrarkeppni er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni.

Á hátíðinni voru lesarar þau, Aðalheiður Helga Kristjánsdóttir, Arnar Freyr Sigtryggsson, Brynja Rós Brynjarsdóttir, Elísabet Ingvarsdóttir, Erla Þyri Brynjarsdóttir, Gunnar Marteinsson, Íris Alma Kristjánsdóttir, Jóhanna Heiður Kristjánsdóttir, Kristján Ingi Smárason og Trevis Ryan. En Trevis, sem er frá Kenýa, las ljóð á hátíðinni á swahili og vakti það mikla kátínu.

 

Fulltrúar skólans í lokakeppninni verða þau Aðalheiður Helga, Brynja Rós, Elísabet, Erla Þyri og Gunnar. Lokakeppnin fer fram í Safnahúsinu 5. mars næstkomandi.


Athugasemdir