Útskrift nemenda

Nemendur tíunda bekkjar kvöddu skólann sinn í dag eftir tíu ára skólagöngu með skólaskírteini í hönd. Hver og einn heldur sína leið með eigin markmið og stefnu í lífinu. Skólinn óskar nemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju og velfarnaðar á lífsins leið.

Þórgunnur Reykjalín, skólastjóri kvaddi nemendur og sagði m.a. að hver væri sinnar gæfusiður og að framtíðin væri nemendanna sjálfra. Sömuleiðis gerði hún orð Hannesar Hafstein að sínum; „Eg veit eigi aðra betri ósk, er ég get bundið við þessa athöfn, en að æskulýður Íslands festi sér í hug þann sannleik, að mennt er máttur og að menntaleysi er máttleysi. Hver sem eykur menntun sína, eykur mátt sinn, og þar að auki mátt þess lands sem á hann“.

Nemendur fluttu söngatriði og sömuleiðis þakkarorð til starfsfólks skólans með hvers konar endurminningum. Að lokinni athöfn var boðið upp á hressingu og jafnframt tekin mynd í stiganum venju samkvæmt.


Athugasemdir