Útskrift tíunda bekkjar

Nemendur tíunda bekkjar kvöddu skólann sinn í dag eftir tíu ára skólagöngu með skólaskírteini í hönd. Hver og einn heldur sína leið með eigin markmið og stefnu í lífinu. Skólinn óskar nemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju og velfarnaðar á lífsins leið.

Þórgunnur Reykjalín, skólastjóri kvaddi nemendur og þakkaði þeim samfylgdina. Á þessum árum hafa orðið til dýrmætar minningar og vinátta. Hún sagði að síðustu tvö skólaár hafi verið frábrugðin vegna heimsfaraldursins. Því hefur þurft að víkja frá hefðbundnu skólastarfi. Þórgunnur hvatti nemendur til að nýta tímann vel enda dýrmæt auðlind, það hvernig við nýtum hann skiptir máli í leit að hamingju. Hún skildi nemendur eftir með þá spurningu fyrir hvern og einn; hvað skiptir mig máli og hvað veitir mér gleði?

Lilja Friðriksdóttir, umsjónarkennari afhenti nemendum sínum skólaskírteinið og Hjálmar Bogi, deildarstjóri færði nemendum rós sem þakklætisvott fyrir samveruna.

Sjöfn Hulda Jónsdóttir flutti kennurum sínum og starfsfólki skólans þakkarorð með hvers konar endurminningum. Auk þess að færa starfsfólki rós að gjöf og Lilju gjöf með þökkum. Foreldrar útskriftarnema buðu upp á veitingar og hér með búið að skapa nýja hefð og þökkum við foreldrum kærlega fyrir það framtak. Venju samkvæmt var tekin hópmynd í stiganum fræga.

Sjöfn Hulda Jónsdóttir flutti ræðu nemenda.


Athugasemdir