Veirunni að ljúka sem faraldri

Mikill meirihluti starfsfólks skólans hefur fengið veiruna.
Mikill meirihluti starfsfólks skólans hefur fengið veiruna.

Samkvæmt tölum hafa um 153 þúsund Íslendingar fengið covid-19 sjúkdóminn. Talið er að enn fleiri hafi smitast af veirunni. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum, ekki síst félagslega hvar hegðun okkar hefur breyst varðandi ýmislegt. Auk þess hafa ýmsar takmarkanir sett hversdaglegu lífi skorður. Öllum takmörkunum hefur nú verið aflétt en ástæða til að sýna ábyrgð og halda í margt sem við lærðum eins og persónulegar sóttvarnir með handþvotti og spritti sem og að sinna hverskonar skjávinnu í bland við að hitta fólk.

Eitt af markmiðum stjórnvalda var að halda úti skólastarfi. Það tókst að mestu leyti í Borgarhólsskóla og hefur starfsfólk í samstarfi við heimili og samfélagið sýnt mikla þrautseigju þessi tvö síðastliðin ár. Saman höfum við farið gegnum sex bylgjur í þessum faraldri. Já, það eru liðin tvö ár frá fyrsta tilfellinu á Íslandi. Í upphafi árs 2020 spurðu nemendur kennarana sína, „kemur þessi veira hingað“ og var stundum fátt um svör. En allar þær breytingar sem samfélagið hefur gengið í gegnum hafa ekki síst haft áhrif á sjálfa nemendur þrátt fyrir að tekist hafi að halda úti skólastarfi.

Við höfum ekki upplýsingar um fjölda smita í nemendahópnum en samkvæmt okkar tölum hefur um 84% starfsfólks smitast af veirunni miðað við um 43% landsmanna samkvæmt tölulegum gögnum. Það verður fróðlegt að lesa sér til um sögu samtímans að nokkrum árum liðnum.

Það er vor í lofti, sólin hærra á himni og blóm í haga.


Athugasemdir