Að kynnast störfum og starfsemi

Hópurinn tók á móti áhöfn Ernis einn morguninn
Hópurinn tók á móti áhöfn Ernis einn morguninn

Nokkrir nemendur úr sjötta bekk hafa undanfarið farið í heimsóknir í fyrirtæki, stofnanir og til félagasamtaka. Í upphafi var haldinn fundur með nemendum þar sem þeim bauðst að koma með sínar óskir hvert þeir vildu fara og hvað þeir vildu skoða.

Í upphafi skoðaði hópurinn starfsemi Miðjunnar þar sem var vel tekið á móti nemendum. Hópurinn skoðaði þar ólík störf og hvaða þjónustu er boðið upp á. Hópurinn fékk fylgd um Stjórnsýsluhúsið á Húsavík og hitti sveitarstjórann til skrafs og ráðagerðar.

Að vakna að kvöldlagi og vinna alla nóttina var áhugavert en bakarinn í Heimabakaríi tók vel á móti nemendum þar. Hann útskýrði í hverju starf sitt felst og sýndi hópnum tól og tæki sem þar eru. Krökkunum bauðst svo að setjast með svala og kleinuhring, spjalla saman og ræða heimsóknina.

Blá ljós og sírenur vekja alltaf forvitni. Hópurinn fór í heimsókn í Naust, hús björgunarsveitarinnar Garðars. Krakkarnir funduðu í stjórnstöð hússins þar sem farið var yfir skipulag og aðgerðir. Síðan var ýmiss búnaður skoðaður; prófað að setjast undir stýri á bíl, bát og snjósleða og ýtt á nokkra takka.

Snemma einn morgun lenti flugvél á Húsavíkurflugvelli. Hópurinn tók á móti vélinni og hitti áhöfnina. Flugstjórinn bauð krökkunum um borð og í flugstjórnarklefann að skoða stjórntækin. Síðan var flugturninn skoðaður sem og vallargeymslan sem hýsir hvers konar tól og tæki.

Hópnum langar að fara í sveitaferð og kynna sér störf bóndans. Einnig að skoða aðstöðu og búnað bæði slökkviliðsins og lögreglunnar og fara í heimsókn á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.

Skólinn vill þakka þeim fyrirtækjum stofnunum og félagasamtökum sem hafa tekið á móti hópnum.

 


Athugasemdir