Að segja sögu móður sinnar

Nemendur áttunda, níunda og tíunda bekkjar fóru á sýningu í Gamla Samkomuhúsinu í dag. Þar fór fram einleikurinn Velkomin heim eftir Maríu Thelmu Smáradóttur, í leikstjórn Köru Hergils og Andreu Vilhjálmsdóttur. Í sýningunni tvinnar leikkonan María Thelma Smáradóttir saman sögu móður sinnar sem fæddist á hrísgrjónaakri í Taílandi og sína eigin sögu. Hún fjallar um tvo ólíka menningarheima sem mætast, þann íslenska og þann tælenska.

Móðir Maríu heitir Vala Rún og fæddist á hrísgrjónaakri í Taílandi um miðja 20. öldina. Hún veit ekki hvenær hún á afmæli, bara að hún fæddist einhvern tímann á monsúntímabilinu. Hún kynntist aldrei föður sínum, missti móður sína sex ára og var meira og minna á eigin vegum eftir það. Árið 2019 stendur dóttir hennar á leiksviði í Þjóðleikhúsinu, fyrsta konan af asískum uppruna sem útskrifast af leikarabraut Listaháskóla Íslands.

Völu Rún fannst hún aldrei eiga heima neins staðar í Taílandi. Á Íslandi leið henni eins og hún væri komin heim, og þó þekkti hún hér engan fyrir og talaði ekki tungumálið. Hvað er það að eiga heima einhvers staðar? Hvað er heimaland?

Sýningin var mjög áhrifarík og vel gerð í alla staði.

„Kristallinn er sá að við erum öll mennsk, við getum öll fundið einhvern samhljóm,“ segir María Thelma. „Mér fannst mikilvægt að gefa fólki rödd sem hefur ekki greiðan aðgang að því að varpa ljósi á sinn heim. María Thelma segir það mikinn heiður að fá tækifæri til að segja sögu móður sinnar. „Ég held að það verði minn mesti heiður á öllum mínum ferli að segja þessa sögu, alveg sama hvað tekur við eftir þetta.“


Athugasemdir