Allskonar kynsegin

Nýlega kom fulltrúi frá Samtökunum ´78 í heimsókn í skólann. Samtökin eru baráttu- og hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi. Til hinsegin fólks teljast m.a. samkynhneigðir, tvíkynhneigðir, pankynhneigðir, eikynhneigðir, trans fólk og intersex fólk.

Sólveig Rós Másdóttir, fræðslustýra samtakanna hitti nemendur tíunda bekkjar annars vegar og hinsvegar nemendur áttunda og níunda bekkjar. Í fræðslu til unglinga er farið yfir helstu hugtökin sem tengjast hinsegin heiminum, svo sem samkynhneigð, tvíkynhneigð og pankynhneigð, trans, kynsegin og intersex. Lögð er áhersla á að við erum öll allskonar og hvað það er mikilvægt að fá að vera við sjálf.

Sömuleiðis er þjónusta Samtakanna '78 er kynnt en þar er boðið upp á bæði unglingastarf og ráðgjafarþjónustu. Símaviðtöl eru einnig í boði fyrir þau sem ekki eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Boðið er upp á spurningar og líflegar umræður.

Sólveig Rós hitti jafnframt starfsfólk skólans og ver með fræðsluerindi fyrir það. Fræðsla til kennara er mikilvæg en hingað til hefur sjaldan verið lögð mikil áhersla á starf með hinsegin nemendum í kennaranámi. Einnig er hinsegin heimurinn síbreytilegur og mikilvægt að kennarar og aðrir sem vinna með börnum og ungmennum séu meðvituð um þessa hlið þeirra veruleika, en hinsegin nemendur standa því miður oftar höllum fæti en samnemendur þeirra og þurfa aukinn stuðning. Einnig er nauðsynlegt að allt skólasamfélagið taki höndum saman til að skapa opið andrúmsloft sem gerir öllum nemendum færi á að vera þau sjálf, hvernig sem það svo er.


Athugasemdir