Fulltrúi Íslands á Norðurlandamótinu í skák

Kristján Ingi hugsar næsta leik
Kristján Ingi hugsar næsta leik

Nemendur skólans halda áfram að vera fulltrúar lands og þjóðar. Helgina 14-18. febrúar fer fram Norðurlandamótið í skólaskák í Borgarnesi. Kristján Ingi Smárason nemandi í Borgarhólsskóla hefur verið valinn sem annar af tveimur fulltrúum Íslands í flokki 10 ára og yngri.

Þar mun hann etja kappi við bestu skákmenn frá hinum Norðurlöndunum í hans aldursflokki og verður afar spennandi að fylgjast með gangi hans á mótinu. Fyrirfram er Kristján metinn sjötti sterkasti í sínum flokki samkvæmt skákstigum af 12 keppendum.

Kristján Ingi Smárason er, svo best er vitað, fyrsti þingeyski skákmaðurinn til að taka þátt í Norðurlandamótinu í skólaskák og má búast við frekari afrekum hjá honum á skáksviðinu í framtíðinni. Við hvetjum nemendur okkar áfram í skákinni og Kristján Inga sömuleiðis til dáða.

Frétt af vef Huginn, skáksamband

Myndina tók Hafþór Hreiðarsson


Athugasemdir