Frá skólaferðlögum

Úr Skjálftasetrinu á Kópaskeri.
Úr Skjálftasetrinu á Kópaskeri.

Að vori fara nemendur gjarnan í skólaferðir. Í slíkum ferðum er unnið með mörg hæfniviðmið og markmið sem getur reynst erfitt að ná innan veggja skólans. Að nemandi átti sig á að hann er hluti af stærra samfélagi eða að nemandi átti sig á að fólk býr við ólík fjölskylduform, hefur ólíkan bakgrunn og bera virðingu fyrir mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum.

Því miður þá gafst nemendum fjórða bekkjar ekki kostur á að fara í hina árlegu sveitaferð og eins þurfum við að fella niður Hvalaskólann hjá fimmta bekk að þessu sinni. Nemendur sjötta bekkjar fóru dagsferð til Raufarhafnar með viðkomu í Gljúfrastofu og Skjálftasetrinu. Þeir skoðuðu Heimskautsgerði og fengu pylsuveislu í Raufarhafnarskóla og pitsahlaðborð á Hótel Norðurljós. Þeir fengu afbragðs gott veður í sinni ferð, sól og sumar. Nemendur sjöunda bekkjar ferðuðust upp í Mývatnssveit í dagsferð til að fjalla um fugla og jarðsögu. Þeir skoðuðu Fuglasafnið og reyndu fyrir sér í fuglatalningu þrátt fyrir leiðinda rok. En veður var óheppilegt þennan dag og ansi hvasst og kalt. Nemendur yljuðu sér í Grjótagjá og virtu fyrir sér Víti. En þangað var ekki hægt að aka alla leið enda snjór á vegi. Þeir sporðrenndu pylsum í Kjörbúðinni, léku sér í íþróttahúsinu og böðuðu sig í Jarðböðunum fyrir pitsahlaðborð á Sel-Hótel Mývatn.

Nemendur tíunda bekkjar héldu lengra til en þeir fóru suður yfir heiðar í hverskonar afþreyingu eins og Adrenalíngarðinn, Fly over Iceland, Skemmtigarðinn, í keilu og sitthvað fleira. Þeir gistu tvær nætur á hóteli sem er þótti afar ljúft. Þeir fóru í fljótasiglingu í Skagafirði og komu sælir heim eftir ánægjulega ferð.


Athugasemdir