- Skólinn
- Nemendur
- Foreldrar
- Jákvæður agi
- Bland í Borgó
- Farsæld barna
- Byrjendalæsi
Alheimurinn blasir við í Borgarhólsskóla. Þemaviku er lokið þar sem himingeimurinn var þemað enda heillandi veröld utan Jarðarinnar eða Tellus. Nemendur og starfsfólk hafa kannað leyndardóma himingeimsins. Lífleg stemming í skólanum og fjölbreytt verkefni. Þyngdarlögmálið, braut plánetanna í okkar sólkerfi, himinljósaskoðun og hverskonar sköpun og litagleði. Hver veit nema hér leynist framtíðar geimvísindaeinstaklingur?
Nemendur fyrsta og annars bekkjar útbjuggu sólkerfið okkar lærðu um reikistjörnurnar okkar í röð frá sólu. Viðfangsefnið var tengt við Byrjendalæsi þar sem orðið reikistjarna var lykilorð og unnið með orðasúpur úr geimorðum. Sömuleiðis hönnuðu nemendur sinn eigin geimfara með mynd af sér í geimskipi. Við komumst skammt án stjórnborðs og því þurfti að smíða mismunandi útgáfur af því.
Nemendur þriðja og fjórða lærðu sömuleiðis um pláneturnar. Þeim var skipt í hópa og gerðust sérfræðingar í einni plánetu og áttu að ímynda sér hvernig geimverur gætu lifað á þeirri plánetu. Allskonar föndur og sköpun í bland við fróðleiksleit og upplýsingaöflun. Jafnframt kynntu nemendur sér stjörnumerkin.
Nemendur fimmta, sjötta og sjöunda hönnuðu geimskip. Þá þurfti að taka tillit til alls þess sem geimskip þarf til langferðalags eins og eldhús, klósett og hvíldarrrými. Geimbúningur er mikilvægur og því þurfti að hanna slíkan og geimverur og geimtónlist. Nemendur heimsóttu Örlyg Hnefil Örlygsson og fengu fræðsluerindi um framandi heima.
Nemendur áttunda, níunda og tíunda bökuðu geimkökur með handgerðu geimskrauti. Nemendur unnu að stop-motion teiknimynd eftir eigin sögu og geimþema úr fjölbreyttu efni. Úr varð fjöldi frumsamdra smásagna. Útkoman var litríkt safn frumlegra stuttmynda. Nemendur hönnuðu reikistjörnur sólkerfisins í þrívídd og söfnuðu upplýsingum og staðreyndum til að setja upp á myndavegg. Þá var mikilvægt að slaka á í boði Sjóbaðanna. Nemendur fjölluðu sérstaklega um tunglið, stöðu þess miðað við Jörð og sól enda alltaf að vaxa og minnka til skiptis. Stjörnumerki voru sömuleiðis til umfjöllunar hjá unglingunum, persónueinkenni og hvaða merki eiga samleið miðað við stjörnuspeki og fleira í þeim dúr.
Í Tónlistarskólanum var opið hús sömuleiðis en hópar nemenda á öllum aldri hafa unnið að tónlistarsmíð í framandi umhverfi sem gestir gátu hlýtt á.
Í vikulokin var foreldrum, gestum og gangandi boðið á sýningu þar sem mátti sjá og skoða verk nemenda. Skólinn bókstaflega fylltist í skamma stund og við þökkum gestum kærlega fyrir komuna.
|
Skólagarði 1 | 640 Húsavík Sími á skrifstofu: 464-6140 Netfang: skoli@borgarholsskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
