Kafað í kvíða

Baldur inn í heilanum á sér.
Baldur inn í heilanum á sér.

Samkvæmt rannsóknum þjást um 12% Íslendinga af óeðlilegum og sjúklegum kvíða. Nemendur áttunda, níunda og tíunda bekkjar fóru í morgun á leiksýninguna Fyrirlestur um eitthvað fallegt í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn er í boði List fyrir alla í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar og Akureyrarbæ. Leikverkið fjallar á gamansaman hátt um þetta erfiða málefni, með það að markmiði að vekja fólk til meðvitundar og opna umræðuna enn frekar um geðheilbrigði á Íslandi.

Í sýningunni kynnumst við Baldri sem er að hefja fyrirlestur um nýjasta listaverk sitt. Hann finnur að eitthvað er ekki eins og það á að vera… hann frýs. Hann er að fá sitt fyrsta kvíðakast. Yfir hann hellist ótti og fylgjumst með honum leita lausna. Við kynnumst líka öllum hinum Böldrunum, því kvíði býr í okkur öllum. Fimm leikarar túlka mörg andlit kvíðans, í sjónrænu og gamansömu leikverki. Leikarar eru Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Kjartan Darri Kristjánsson, Bjarni Snæbjörnsson og Sara Martí, sem einnig er leikstjóri sýningarinnar. Höfundur er SmartíLab-hópurinn.

Í verkinu er kvíðinn skoðaður frá ýmsum sjónarhornum og kafað í tilfinningar, hugsanir, magaverki, samfélagsmiðla, geðlyf, svefntruflanir, sjálfsþekkingu, sigra, bata, hugarangur, sálarfrið og kvíðaofurhetjur.

List fyrir alla er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Listviðburðirnir eru í öllum tilfellum unnir af fagfólki og leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.

Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.


Athugasemdir