Listahátíð barna - Stóra upplestrarkeppnin

Ingibjörg Einarsdóttir ásamt sigurvegurum hátíðarinnar.
Ingibjörg Einarsdóttir ásamt sigurvegurum hátíðarinnar.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram síðastliðin föstudag Safnahúsinu á Húsavík. Tíu ungmenni úr 7. bekk úr Borgarhólsskóla, Þingeyjarskóla, Grunnskólanum á Þórshöfn og Öxarfjarðarskóla komu fram og fluttu mál sitt fyrir gesti.

 

Í fyrstu umferð voru lesnar svipmyndir úr sögunni Stormsker eftir Birki Blæ Ingólfsson. Í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Jón Jónsson úr Vör. En í þriðju og síðustu umferð fengu lesarar val um hvaða ljóð þeir vildu flytja. Nemendur Tónlistarskóla Húsavíkur, Þingeyjarskóla og Grunnskóla Þórshafnar voru með tónlistaratriði.

Í fyrsta sæti var Ásgerður Ólöf Júlíusdóttir úr Grunnskólanum á Þórshöfn, í öðru sæti var Katla María Guðnadóttir úr Borgarhólsskóla og þriðja sæti skipaði Sigurður Kári Jónsson úr Öxarfjarðarskóla. Lesarar úr Borgarhólsskóla auk Kötlu voru þau Bjartur Vignisson, Hjördís Inga Garðarsdóttir, Hrafnhildur Anna Árnýjardóttir og Inga María Ciuraj fulltrúar skólans og voru þau öll skólanum til mikils sóma.

Stóra upplestrarkeppnin fyrir sjöunda bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Við fögnum því hér í Þingeyjarsýlsu að 20 ár eru síðan við tókum fyrst þátt.

Aðstandendur keppninnar frá upphafi hafa verið Heimili og skóli, Íslensk málnefnd, Íslenska lestrarfélagið (sem hefur verið lagt niður), Kennaraháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands og Samtök móðurmálskennara. Árið 2003 bættust Rithöfundasamband Íslands og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna í hópinn. Vorið 2004 voru stofnuð formleg samtök, Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn. Í þau tuttugu ár sem keppnin hefur verið haldin í Þingeyjarsýslu hefur formaður samtakanna komið og heiðrað okkur með nærveru sinni og verið þátttakandi í þessari listahátíð barnanna. Við kunnum Röddum og Ingibjörgu Einarsdóttur, formanni bestu þakkir fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf. Sömuleiðis ber að þakka Skólaþjónustu Norðurþings fyrir samstarfið sem heldur utan um hátíðina.

Fulltrúar skólans, f.v. Bjartur, Inga María, Katla María, Hjördís Inga, Hrafnhildur Anna og Margrét Sif sem lék lag á flygilinn sem fulltrúi Tónlistarskóla Húsavíkur.


Athugasemdir