Nýjar reglur og halda í hefðir

Það þarf ekki mikinn snjó til að gera snjókarl.
Það þarf ekki mikinn snjó til að gera snjókarl.

Skólastarf hefur sannarlega tekið ýmsum breytingum frá upphafi skólaárs. Við viljum byrja á því að þakka skilninginn og að gefa stjórnendum og starfsfólki tíma til að aðlaga skólastarf nýjum veruleika. Nýjasta reglugerðin opnaði ekki marga möguleika til að nálgast hefðbundið skólastarf en léttir skólastarf að einhverju leyti frá og með næstkomandi mánudegi. Hinar nýju reglur gilda til og með 1. desember næstkomandi.

Grímuskylda og tveggja metra nálægðarmörk eiga nú við nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk og allt starfsfólk. Allir nemendur geta farið í skólaíþróttir og nemendur fjórða til og með sjöunda bekk fá sundkennslu aftur í sína stundatöflu. Nemendur fyrsta til og með sjöunda bekk geta nýtt sér mötuneytið. Skólastarf miðast við kennslu milli kl. 8:15 og 12:00. Reglugerðin miðar enn við að ekki megi fleiri en 25 og 50 nemendur koma saman. Útivist og leikir barna utandyra er óheft.

Desembermánuður er framundan. Við höfum ákveðið að leggja af jólapúkk í því formi sem það hefur tíðkast. Þess í stað viljum við koma á nýjum sið; að gefa til góðgerðarmála. Nemendur fá umslag í skólanum sem þeir fara með heim. Hverjum og einum nemanda er í sjálfsvald sett hvort og þá hversu miklir fjármunir eru settir í umslagið. Umslaginu er lokað og nemendur skila því í þar til gerða góðgerðarkassa í skólanum. Við munum kynna góðgerðarfélög fyrir nemendum og þeir velja síðan það félag sem nýtur góðs af framlaginu sem myndast. Starfsfólk skólans tekur sömuleiðis þátt.

Við munum þurfa að endurskoða ýmsar jólahefðir líkt og Verkstæðisdag og Litlu-jólin að óbreyttu. Skólinn verður því miður ekki opinn foreldrum, fjölskyldum þeirra eða gestum. Engu að síður ætlum við að halda í hefðir að föndra og skapa þennan dag. Nemendur tíunda bekkjar munu opna kaffihús og taka mið af aðstæðum enda snar þáttur í fjáröflun fyrir skólaferðalag. Sömuleiðis er unnið að því að nemendur Tónlistarskóla komi fram á þessum degi.

Þær eru margvíslegar kvaðirnar og stangast jafnvel á. Við gerum öll eins vel og við getum og hlúum að börnunum okkar. Nú er mikilvægt sem aldrei fyrr að sýna sjálfum sér vinsemd og huga að því sem gefur manni mest.


Athugasemdir