Sælla er að gefa en þiggja

Á hverju ári má gera ráð fyrir að Íslendingar; fólk á vinnustöðum eða nemendur í jólapúkki verji hundruðum þúsunda í smágjafir til að gefa og þiggja. Undanfarin ár hafa nemendur haldið pakkapúkk fyrir jólin og skipst á gjöfum. Gildi þessarar hefðar hefur dvínað. Við viljum engu að síður nýta kraftinn sem býr í hugtakinu, sælla er að gefa en þiggja. Sem dæmi; ef starfsfólk Borgahólsskóla heldur jólapúkk þar sem hver kemur með glaðning að upphæð 2500 krónur væri það andvirði 172.500 króna. Margt smátt gerir eitt stórt.

Í stað þess að halda pakkapúkk þá viljum við sem í skólanum störfum, bæði nemendur og starfsfólk, láta gott af okkur leiða og gefa fjármuni til góðgerðarsamtaka; til þeirra sem minna mega sín.

Stjórnendur skólans völdu fjögur ólík góðgerðarsamtök; Velferðarsjóð Þingeyinga, Hjálparstarf kirkjunnar, ABC barnahjálp og UNICEF. Nemendur skólans fengu stutta kynningu á þessum samtökum og kusu á milli þeirra. Samtökin sem fengu flest atkvæði nemenda og fá fjárframlag þeirra þetta árið er UNICEF. Starfsfólk mun áfram líkt og í fyrra styrkja Velferðarsjóð Þingeyinga.

Hver nemandi fékk afhent umslag í dag. Umslaginu er svo skilað næstkomandi föstudag í þar til gerðan góðgerðarkassa. Hægt er að brjóta umslagið saman, hefta það saman eða loka með öðrum hætti. Það er hverjum og einum frjálst hversu há fjárhæð fer í umslagið kjósi viðkomandi að styrkja málefnið.

Samantekið

  • Nemendur velja samtökin sem njóta góðs af stuðningi skólans.
  • Nemendur vita fyrirfram hvaða samtök er verið að styrkja.
  • Hver og inn leggur til fjárframlag eða ekki. Allir skila umslaginu.

Aðeins um Unicef

Unicef á Íslandi er íslensk landsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. UNICEF er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Samtökin berjast fyrir réttindum allra barna og sinna bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. Þau erum á vettvangi í yfir 190 löndum og hafa að leiðarljósi að börn njóti velferðar – hvar sem þau er að finna.


Athugasemdir