Skólalok

Skólalok skólaársins í Íþróttahöllinni
Skólalok skólaársins í Íþróttahöllinni
Skólaárinu 2017 - 2018 er formlega lokið. Nemendur og flest starfsfólk komið í sumarfrí. Starfsfólk mætir aftur til vinnu þann 15. ágúst næstkomandi og upphaf skólaársins 22. þess mánaðar með setningu. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn þann 23. þess mánaðar.

Skólaárinu 2017 - 2018 er formlega lokið. Nemendur og flest starfsfólk komið í sumarfrí. Starfsfólk mætir aftur til vinnu þann 15. ágúst næstkomandi og upphaf skólaársins 22. þess mánaðar með setningu. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn þann 23. þess mánaðar.

Nemendur voru kvaddir fimmtudaginn 7. júní síðastliðinn með athöfn í Íþróttahöllinni. Þar fengu þeir umsögn liðins skólaárs. Skólastjóri flutti ávarp, þau Andri Már Sigursveinsson og Karen Vala Daníelsdóttir úr sjöunda bekk lásu ljóð og Stúlknakór Húsavíkur flutti lög undir stjórn Ástu Magnúsdóttur. Í upphafi skólaárs voru nemendur 286 og starfsmenn 60 í mismunandi stöðuhlutföllum. Óskilamunir sem verða eftir í lok skólaárs verða gefnir í Rauða krossinn.

Skólastjóri fór yfir starfsemi liðins árs. Stórviðburðir eru daglegt skólastarf og samvera um 350 einstaklinga í lærdómssamfélagi. Gestakomur voru nokkrar, farið var í göngu- og vettvangsferðir, iðkuð útikennsla, Upplestrarkeppnin, verkstæðisdagurinn, sveitaferðin, þorrablótið, árshátíð og svo margt fleira dreif á daga okkar í skólanum. Fyrir utan persónulega sigra hvers og eins á ólíkum sviðum skólastarfsins.

Nemendur tíunda bekkjar útskrifast venju samkvæmt fyrr á sérstakri útskriftarathöfn í Sal skólans. Þar fengu 28 nemendur grunnskólaskírteini og halda vit nýrra ævintýra.

Fjórir starfsmenn létu af störfum við lok skólaársins. Þær Harpa Gunnur Aðalbjarnardóttir, Helga Sigurbjörg Gunnarsdóttir, Marzenna Katarzyna og Sólveig Jónsdóttir. Þær fengu smá glaðning með kveðju að þessu tilefni. Þá eru Áslaug Guðmundsdóttir og Unnar Þór Garðarsson að fara í ársleyfi frá störfum.

Skólastjóri fór yfir tíðindasamt skólaár. Ótal verkefni bar á dyr. Margt hefur áunnist, unnið er að öðrum og önnur sem bíða til næsta skólaárs. Skólastarf er breytingastarf. Hefðir og siðir eru mikilvæg í starfi skólans en svigrúm til breytinga er ómetanlegur þáttur í öllu skólastarfi. Opinber umræða um skólann hefur sett mark sitt á skólasamfélagið; annarsvegar um einelti og hinsvegar öryggisrof tölvufyrirtækis. Það er alltaf hægt að gera betur og mikilvægt að hver líti í eigin barm.

Skólastjóri gerði einelti að sérstöku umtalsefni en tíðni eineltis á samfélagsmiðlum hefur samkvæmt mælingum aukist. En vinnu gegn einelti lýkur aldrei.

Börnin verja um þriðjungi af tilveru sinni í skólanum. En fjarvera nemenda úr skólanum hefur sjaldan verið meiri og þarf að finna leiðir til að draga úr fjarveru nemenda frá vinnu sinni.

Skólastarf er metið með margskonar hætti. Eitt verkfæri er Skólapúlsinn. Þar birtist vitnisburður skólasamfélagsins á skólastarfinu. Nemendur og foreldrar svöruðu spurningunni, „hvað er gott við skólann þinn“ meðal annars þannig; fjölbreytt kennsla og við ráðum oftast hvernig við skilum verkefnum, margir góðir kennarar og allt, skólinn er lífið. Niðurstöður liðins skólaárs sína jafnframt að ánægja eldri nemenda af lestri hefur aukist en ánægja yngri nemenda er minni en á landsvísu og nauðsynlegt að hlúa að því. Skólastjóri hvatti alla til að lesa í sumar og foreldra til að halda lestrinum að börnum sínum. Að öðrum kosti er hætta á að dragi úr færni í lestri og árangur liðins skólaársins að engu.

Samkvæmt Skólapúlsinum eru aðeins um 23% nemenda sem segjast hreyfa sig oftar en tvisvar í viku. Það er áhyggjuefni. Hreyfing er gríðarlega mikilvægur forvarnarþáttur.

Íslandsbanki styrkti skólann með kaupum á tæknilegói á tveimur árum, samtals að upphæð 350 þús. kr. Soroptimistakonur færðu skólanum 50 þús. kr. að gjöf, ætlað til að styðja við nám barna með fötlun. Stofnanir og fyrirtæki sem styðja við skólastarfið með einum eða öðrum hætti færum við bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fá lestrarafar og -ömmur sem heimsækja skólann reglulega til að styðja við lestur nemenda.

Lykill að árangursríku skólastarfi er traust og gott samstarf heimilis og skóla. Búið er að endurvekja Foreldrafélag skólans og gengur sú vinna vel. Miklar væntingar eru gerðar til starfsins enda virkir foreldrar snar þáttur í eflingu skólastarfs og eitt sterkasta aflið.

Skólastjóri hvatti foreldra til að spila við börn sín og taka þátt í lífi þeirra. Vera óhræddir við að aga börnin með verkfærum Jákvæðs aga og vinna saman að því að gera hvert barna að sigurvegara í sínu lífi.

Að lokum þakkaði skólastjóri starfsfólki og nemendum fyrir samveruna og óskaði öllum gleðilegs sumar. Hún gerði orð Magnúsar Helgasonar að sínum; „ætlast ég til að skólinn og foreldrar veki eftirtekt þeirra á því, sem er í kringum þau, kenni þeim að gefa gaum íslenskri náttúru, þeim undrum og dásemdum, sem heimahagarnir, sveitin þeirra hefir að geyma“

Gleðilegt sumar.


Athugasemdir