Skólastarf hafið á Borgarhól

Frá skólasetningu í morgun.
Frá skólasetningu í morgun.

Skólastarf hófst í Borgarhólsskóla í dag. Sólin skein og nemendur mættu á Borgarhólinn í morgun ásamt foreldrum sínum. Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir, skólastjóri hélt tölu á stuttri athöfn ásamt Guðna Bragasyni, nýjum skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur. En Þórgunnur var í námsleyfi á síðasta skólaári og sagðist hlakka mikið til komandi skólaárs.  

    Tilveran færist nú í fastari skorður og fram undan tími sem á að einkennast af reglu og staðfestu, uppbyggingu, samvinnu og gleði. Jákvæðni skilar miklu meiru og bæði tækifæri og lausnir eru allt um kring ef við gefum okkur tíma til að leita. Þórgunnur sagði að það væri okkar eigin hugarfar sem skipti öllu máli. Hún bætti við að ef skólaandinn byggir á lífsgleði, vellíðan og uppbyggilegri gagnrýni allra er allt hægt.

    Það eru 298 nemendur skráðir í skólann sem er rétt rúmlega 2% fjölgun frá fyrra ári. Starfsfólk er 60 einstaklingar í mismunandi starfshlutföllum. Þórgunnur bauð nemendur fyrsta bekkjar þeirra velkomna í skólann. Sömuleiðis nýja nemendur sem hefja nám við skólann. Hún bauð foreldra sérstaklega velkomna í skólann og sagði að það væri tilhlökkunarefni að vinna með þeim að velferð barnanna á komandi skólaári og bætti við að við berum sameiginlega ábyrgð á velferð þeirra þó höfuðábyrgðin væri alltaf foreldranna. Þórgunnur hvatti foreldra til að vera í góðu samstarfi við skólann og bauð þá velkomna í skólann til að spjalla og skoða skólastarfið.

    Skólastarf hefur verið með allskonar sniði síðastliðin covid ár en ákveðin festa færist nú yfir starfið. Skólastarf hefur tekið ákveðnum breytingum vegna þessa og mikilvægt að taka það sem vel var gert með inn í framtíðina og taka upp það sem áður var háð takmörkunum og vel var gert. Þórgunnur sagði að það væri brýnt að líta upp og horfa fram á veginn.

    Borgarhólsskóli er með uppeldisstefnuna Jákvæður agi sem heldur utan um hvernig við högum samskiptum okkar. Teymiskennsla verður áfram í mótun sem og samþætting námsgreina og þemanám. Þórgunnur sagði að stefna skólans sé að vera framúrskarandi skóli og markmið að halda áfram á þeirri vegferð og vinnum að því að uppfylla öll þau viðmið sem til þarf og nýtum rannsóknir um skólastarf okkur til framdráttar.

    Þórgunnur gerði skólaskútuna að umtalsefni en þar má finna grunngildi okkar; jákvæðni, heiðarleiki, þekking, félagsfærni, sjálfsvirðing, ábyrgð, framsýni og víðsýni. Allt starf okkar í skólanum á að miða að því að nemendur tileinki sér þessi gildi. Hún gerði samskipti að sérstöku viðfangsefni en því miður heyrum við meira af hvers kyns fordómum í garð fjölbreytileikans. Þar reynir á að fullorðnir séu góðar fyrirmyndir, að við gætum orða okkar og sýnum fjölbreytileikanum í það minnsta umburðarlyndi og kærleik ef við getum ekki einfaldlega fagnað honum.

    Samskipti barnanna fara mikið fram á samfélagsmiðlum. Þórgunnur biðlaði sérstaklega til foreldra að fylgjast vel með öllum samskiptatækjum barna sinna og því sem þar fer fram. Skólinn fæst gjarnan við málefni sem fara þar fram og gerast utan skólatíma. Hún hvatti foreldra til að vera vakandi og að kenna börnum sínum viðeigandi hegðun á samfélagsmiðlum. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Að lokum vitnaði Þórgunnur í franska heimspeki;

֦ Núna er góður tími, ekki á morgun, betri tími kemur ekki. Það er í dag sem við getum gert okkar besta ekki í einhverri fjarlægðri framtíð, á morgun eða að ári. Það er í dag sem við undirbúum okkur fyrir að verða betri á morgun.֞


Athugasemdir