Skólinn iðar af lífi á ný – skólaárið hafið

Við skólasetningu í morgun.
Við skólasetningu í morgun.

Börn bregða á leik, spark í bolta, hlátrasköll og heljarstökk á ærslabelgnum. Já, nýtt skólaár er hafið og skólinn iðar af lífi. Hér eru öll í mismunandi störfum og hafa sín hlutverk. Við erum öll hluti af skólasamfélaginu. Það er alltaf sérstakur dagur að koma saman á fyrsta degi, spennt, forvitin og kannski smá kvíðin að hefja nýjan kafla í skólasamfélaginu. Þetta er ný byrjun, ný tækifæri, nýjir vinir og nýjar áskoranir.

Þórgunnur Reykjalín, skólastjóri, bauð nýja nemendur og foreldra sérstaklega velkomin og nýtt starfsfólk sömuleiðis. Nemendur skólans eru 286 við upphaf skólaársins. Öll þurfa að ganga inn um innganginn að sunnanverðu vegna framkvæmda við nýja félagsmiðstöð og frístund milli skólans og framhaldsskólans.

Þórgunnur minnti öll á að æfingin skapar meistarann og mistök eru gullið tækifæri til framfara. Enginn er fullkominn heldur þarf að leggja sig fram, reyna og læra af reynslunni. Hún nefndi einnig að hún vonaðist til að sjá flest sem mest og vera eins lítið frá námi og mögulegt er. Þórgunnur ræddi um að skólinn er ekki aðeins staður til að lesa, skrifa og reikna heldur er skóli samfélag. Hér takast nemendur og starfsfólk á við ýmis verkefni og hlutverk okkar ásamt foreldrum að byggja góðan skóla á grunni traustra samskipta.

Við viljum skapa öruggt umhverfi fyrir öll. Einelti hefur aldrei neitt gott í för með sér. Enginn á að þurfa mæta í skólann með kvíðahnút í maganum. Þess vegna er mikilvægt að tala saman, vera góðir vinir, grípa inn í og láta vita verðum við vör við slíkt. Skólinn vinnur að endurbótum á eineltisferlum og vinnulagi til að bregðast enn betur við eineltismálum.

Þórgunnur hvatti foreldra til að kynna sér lög og reglur um farsæld barna en um þá þjónstu má lesa á heimasíðu Norðurþings, sjá HÉR. Tengiliður í skólanum við þá þjónustu er Arna Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri stoðþjónustu. Nemendur og foreldrar geta leitað til hennar um þá þjónustu.

Það er mikil gróska í skólastarfinu. Skólinn tekur þátt í tveimur stórum og öflugum þróunarverkefnum með góðum samstarfsaðilum. Lítil skref á leið til læsis þar sem höfuðáherslan er á læsi og Leiðsagnarnám sem miðar að því að bæta upplifun nemenda í námi og auka sjálfstæði þeirra. Áfram verður unnið með samþættingu í samstarfi við Völsung um íþróttastarf á skólatíma.

Foreldrar eru mikilvægustu bandamenn skólans. Við treystum á þeirra stuðning til að skapa sem besta umhverfið nemenda okkar. Þórgunnur sagði í lokin að hún vænti góðs samstarfs sem einkennast af virðingu, vináttu, gleði og kærleika. Skólasamfélagið er sterkast og öflugast þegar öll leggja sitt af mörkum.

Skólaárið 2025-2026 er formlega hafið.