Störfin í skólanum

Að kanna söguna og skoða störfin. Nemendur í öðrum og þriðja bekk unnu að samþættu verkefni byrjendalæsis og samfélagsgreina um skólasamfélagið á dögunum. Kennarar tengdu saman markmið í báðum þessum greinum eins og að nemendur kynnist sögu síns skóla, setji sig inn í málefni skólasamfélagsins, ræði um réttindi og skyldur sínar í skólasamfélaginu og þjálfist í ritun sendibréfa.

Gæðatextinn sem nemendur unnu með var skólasöngur skólans en lag og texta gerði Hólmfríður Benediktsdóttir, fyrrum tónlistarkennari við skólann. Unnið var með textann á fjölbreyttan hátt með aðferðum byrjendalæsis og söngurinn sunginn.

Nemendur ræddu um ólík störf innan skólans og gerðu óskalista yfir það starfsfólk sem þeir vildu hitta og fræðast um störf þeirra. Með aðstoð nemenda á unglingastigi fóru nemendur um skólann í hópum og tóku viðtöl við starfsfólk. Krakkarnir fengu að prófa hin ólíku störf og sinntu í skamma stund. Að loknu ferðlagi um skólann skrifuðu nemendur frásögn af ferðalaginu, hvað þeir sáu, hvað þeir gerðu og upplifðu.

Námsráðgjafi ræddi við nemendur um störf fólksins í skólanum og foreldra nemenda. Sömuleiðis var fjallað um draumastarf nemendanna sjálfra og nemendur teiknuðu mynd af sér í sínu draumastarfi. Nemendur teiknuðu myndir af draumaskólanum sínum og bjuggu til draumamatseðil.

Nemendur fræddust um sögu skólans og hvernig kennslu og skólastarfi hefur verið háttað í gegnum tíðina. Það þótti áhugavert og sýndu nemendur því mikinn áhuga.

Nemendur tengdu alla þessa vinnu við KVL-aðferðina í byrjendalæsi. Nemendur sögðu frá því sem þeir kunna í sögu skólans (K - kann), því næst settu þeir fram spurningar um sögu skólans (V – vil vita) og að loknu verkefninu fóru þeir yfir það sem þeir höfðu lært (L – hef lært).

Skólalóðin er nemendum hugleikinn. Þá sérstaklega hvernig hægt væri að bæta hana. Nemendur teiknuðu myndir, hönnuðu og komu með hugmyndir að því hvernig þeir vildu sjá lóðina. Nokkrir nemenda skrifuðu bréf sem þeir afhentu formanni foreldrafélags skólans, skólastjóra og sveitarstjóra Norðurþings með virktum þar sem birtast hugmyndir og lausnir að því hvernig má gera skólalóðina betri.

Erindi nemenda skyldi tekið fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins og sveitarstjóri hugðist upplýsa nemendur um niðurstöðu stjórnkerfisins á erindi nemenda.


Athugasemdir