Útivist fyrir Höfuðdag

Við Gatanöfina
Við Gatanöfina

Það er árviss viðburður að nemendur skólans fari í lengri eða skemmri gönguferðir og njóti útiveru með skipulögðum hætti í upphafi hvers skólaárs. Verkefnið er liður í að fagna degi íslenskrar náttúru sem er haldinn 16. september ár hvert. Markmið göngudagsins falla vel að grunnþáttum menntunar í heilbrigði og velferð en þar er lögð áhersla á að leiðbeina nemendum um að temja sér heilbrigða lífshætti og ábyrga umgengni við líf og umhverfi. Markvisst hreyfiuppeldi leggur grunn að líkamlegri, andlegri og félagslegri færni nemenda. Við gripum veðurblíðu vikunnar daginn fyrir höfuðdag en samkvæmt gamalli veðurtrú bregður vanalega veðráttu á þeim degi og helst hin sama í 20 daga.

Nemendur fyrsta og annars nutu veðurblíðunnar í Sundlaug Húsavíkur, áðu með nesti við sundlaugina og í Skrúðgarðinum. Nemendur þriðja og fjórða fóru nýja stigann niður á Skipaflúð, um hafnarsvæðið og upp Beinabakka. Þaðan var haldið upp á Húsavíkurhöfða og eftir nestispásu á folfsvæðinu var gengið um Traðargerði gegnum skógræktina og lóðbeint niður Skálamelinn að skólanum. Sérstaklega var unnið með þrautseigju og að njóta veðurblíðu og náttúru.

Nemendur fimmta, sjötta og sjöunda gengu tæpa sjö kílímetra til suðurs og austurs upp að Kötlum. Þar var tekin nestispása áður en gengið var heim gegnum golfvallarsvæðið að Skrúðgarðinum. Unglingarnir gengu tæpa tíu kílómetra sem leið lá að hafnarsvæðinu, gegnum Húsavíkurhöfðagöng og að Gatanöf hvar þau snæddu nesti og hvíldu lúin bein. Eftir náttúruupplifun var lagt af stað heim til Húsavíkur í frábæru veðri, sól og blíðu. Veður var hið ágætasta og náði víða 20°C í logni og sólskini og ákaflega huggulegt að njóta dagsins.

s