Niðurstöður úr íslensku æskulýðsrannsókninni - vor 2023

Íslenska æskulýðsrannsóknin (ÍÆ) er rannsókn sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmið verkefnisins er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og gera niðurstöður aðgengilegar til að styðja við stefnumótun. Rannsóknin nær til 4. til og með 10. bekk. Könnun Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar verður frá og með skólaárinu 2021-2022 lögð fyrir á hverju ári í grunnskólum. Könnunin var lögð fyrir í mars og apríl sl.

Niðurstöður úr Borgarhólsskóla eru bornar saman við skóla á Norðurlandi eystra utan Akureyrar og svo landið allt. Við höfum tekið saman helstu niðurstöðu í hverjum árgangi og hvar niðurstöður í okkar skóla víkja frá sambærilegm niðurstöðum á landsvísu og á Norðurlandi. Sömuleiðis hvar er niðurstöður benda til mismunar milli drengja og stúlkna.

4. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá telja fjórir af hverjum fimm mikilvægt að leggja sig fram í skólanum sem er undir meðaltali. Nánar má sjá:

  • Drengir telja síður mikilvægt að leggja sig fram í skólanum. Þá telja nemendur meiri truflun í skólanum og sérstaklega stúlkum.
  • Þriðjungi stúlkna finnst vera truflandi hávaði í kennslustofunni.
  • Nemendur voru síður ánægðir með skólamatinn.
  • Drengjum fannst síður skemmtilegt að lesa í skólanum en stúlkum og hlutfall drengja nokkuð undir meðaltali.
  • Það vekur athygli að nemendur í fjórða bekk Borgarhólsskóla verða samkvæmt þessari niðurstöðu síður pirraðir en samanburðarnemendur.
  • Drengjum virðist síður líða vel í skólanum en stúlkur í árganginum og samanburðarnemendur á landsvísu.
  • Stúlkur virðast sýna meiri einmanaleika í skólanum en drengir.
  • Tilfellum þar sem nemendur telja sig lagða í einelti í skólanum eru mun færri í Borgarhólsskóla en drengir telja sig frekar verða fyrir einelti en stúlkur.
  • Hinsvegar telja fleiri nemendur sig vera lagða í einelti á netinu en gerist á landsvísu og er hlutfall stúlkna mun hærra en drengja.
  • Þá segjast nemendur fjórða bekkjar oftar vera þreyttir í skólanum en aðrir nemendur

5. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá eru niðurstöður fimmta bekkjar nokkuð á pari við niðurstöður á landsvísu. Þeir telja sig þó þreyttari, vera oft hávaði í kennslustofunni og fannst skólamaturinn síðri. Nánar má sjá:

  • Það vekur athygli að drengjum líkar mun betur við skólann en stúlkum.
  • Tæplega fjórar af hverjum tíu stúlkum finnst þær vera þreyttar í skólanum.
  • Drengjum finnst mikilvægara að leggja sig fram en stúlkum en þriðjungi stúlkna finnst það ekki mikilvæg á meðan nær öllum drengjum finnst það mikilvægt. Þessar niðurstöður skera sig úr varðandi samanburð við aðra skóla og á landsvísu.
  • Um 40% stúlkna finnst þær hafa einhvern fullorðinn til að tala við skólanum á meðan hlutfallið er um 80% meðal drengja.
  • Þegar spurt er um hreyfingu þá segja aðeins 5% nemenda að þeir hreyfi sig mjög mikið síðastliðna sjö daga sem er nokkuð langt undir landsmeðaltali.
  • Varðandi einelti og samskipti þá víkur niðurstaðan í Borgarhólsskóla nokkuð frá landsmeðaltali og segjast nemendur hafa upplifað meira einelti hér eða að vera skilin út undan, drengir frekar en stúlkur. Hinsvegar verða þau síður fyrir einelti eða að einhver sé vondur við sig á netinu.

6. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá líkaði um 71% nemenda við skólann sem er nokkuð lægra en landsmeðaltal. Hlutfall nemenda sem les að minnsta kosti einu sinni í viku er sömuleiðis lægra. Nánar má sjá:

  • Um 40% stúlkna líkar ekki eða líkar alls ekki við skólann án meðan nær öllum drengjum líkar við skólann. Báðar niðurstöður víkja frá samanburðartölum.
  • Nemendum sjötta bekkjar töldu sig síður upplifa að þeir tilheyri skólanum en tæplega þriðjungi nemenda fannst þeir ekki tilheyra.
  • Um þriðjungur bæði drengja og stúlkna fannst þau vera þreytt í skólanum, næstum alla daga.
  • Ef skoðuð eru andleg einkenni þá var hlutfall nemenda sjötta bekkjar sem átti erfitt með að sofna, verið döpur, kvíðin, pirruð eða með magaverk nokkuð hærra en samanburðartölur.
  • Þá virðast stúlkur fara seinna að sofa en drengir þegar það er skóli daginn eftir.
  • Stúlkur virðast frekar lenda í slagsmálum en drengir. Hlutfall stúlkna sem hefur lent í slagsmálum á síðastliðnu ári er meira en helmingi hærra en á landsvísu.
  • Einelti mælist meira hjá stúlkum en drengjum og er hærra en á landsvísu. Það sem vegur þyngst er hátt hlutfall stúlkna sem finnst einhver vera að baktala sig.

7. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá líkar fleiri nemendum við skólann sinn en landsmeðaltal eða um 97% nemenda. Aðeins einn af hverjum tíu nemendum telja sig hreyfa sig daglega og tæplega helmingur telur sig vera þreytt í skólanum. Um 83% segjast treysta kennurunum sínum vel sem er hærra en samanburðartölur gefa til kynna. Nánar má sjá:

  • Nemendur sjöunda bekkjar telja sig vera fyrir minna álagi í námi en annarsstaðar, drengir upplifa minna álag en stúlkur.
  • Tæplega helmingur nemenda segist vera mjög sammála því að kennaranum sínum finnst vera annt um sig sem einstakling. Það er helmingi hærra en á landsvísu. Traust til kennara mælist mun hærra en í tölum til samanburðar.
  • Drengir telja sig vera mun þreyttari en stúlkur en þreyta mælist nokkuð yfir landsmeðaltali hjá drengjum.
  • Einelti og að vera skilin út undan mælist aðeins yfir landsmeðaltali meðal stúlkna.

8. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá segist tæplega annar hver nemandi upplifa þreytu í skólanum og rúmlega einn af hverjum tíu sem segist hreyfa sig daglega sem er nokkuð undir því sem gerist á landsvísu. Nánar má sjá:

  • Fjórði hver nemandi segist vera því mjög sammála um að traust til kennara sinna sem er hærra en á landsvísu. Það á sérstaklega við um drengi.
  • Almennt virðast nemendur frá færri tækifæri til að stýra eigin námi og hafa áhrif á námi sitt.
  • Nemendur virðast lesa meira af dagblöðum eða fréttasíður á netinu í frítíma sínum en jafnaldrar annarsstaðar á landinu.
  • Tæplega þriðjungur stúlkna finnst þeim vera oft þreytt, næstum daglega í skólanum.
  • Hærra hlutfall nemenda finnst vera truflandi hávaði í kennslustofunni en í samanburðartölum og á það bæði við um drengi og stúlkur.
  • Sömuleiðis skora nemendur hærra þegar spurt er um andleg einkenni eins og erfiðleikar með svefn, depurð, kvíða og pirring.
  • Stúlkur virðast fara seinna að sofa en aðrar stúlkur á landsvísu þegar það er skóli daginn eftir.
  • Meira en helmingur drengja upplifa einmanaleika, stundum eða oft sem er nokkuð hærra en á landsvísu.
  • Fleiri drengir og stúlkur í skólanum hafa upplifað að vera lögð í einelti undanfarna tvo mánuði en samnemendur á landsvísu. Munar þar mestu um þegar einhver segir eitthvað særandi og að finnast einhver vera að baktala sig.

9. bekkur

Samkvæmt lykiltölum þá hreyfa nemendur sig meira en gengur og gerist á landsvísu og eru síður þreyttir í skólanum. Nemendur lesa minna en í samanburðartölum og treysta kennurunum sínum síður. Nánar má sjá

  • Stúlkur virðast upplifa meira álag vegna skólanámsins.
  • Mun færri stúlkur virðast treysta kennurunum sínum en á landsvísu en innan við fjórðungur stúlkna segir vera því mjög sammála eða sammála um að þær treysti kennurunum sínum.
  • Nemendum finnst þeir síður vera þreyttir í skólanum miðað við samanburðartölur og minna en einn af hverjum tíu segir vera þreyttur næstum alla daga í skólanum sem er lægra hlutfall en samnemendur annarsstaðar.
  • Tæplega fjórðungur nemenda segir að það sé alltaf hávaði í kennslustofunni og þau sem segja stundum, oft eða alltaf er um 75% nemenda þegar spurt er um hávaða í kennslustofunni. Hlutfall stúlkna er nokkuð hærra en drengja.
  • Nemendur virðast síður vera daprir og kvíðnir en landsmeðaltalið þegar kemur að andlegum einkennum.
  • Nemendur hreyfa sig meira en gengur og gerist á landsvísu og fara fyrr að sofa þegar það skóli daginn eftir.
  • Nokkuð hærra hlutfall nemenda árgangsins finnst einhver vera að baktala sig en mælist á landsvísu.
  • Þegar spurt er um hvar einelti á sér stað skorar samfélagsmiðlar mun hærra hér en á landsvísu.

10. bekkur

Samkvæmt lykiltölum hreyfa nemendur sig meira en samnemendur á landsvísu og upplifa minna álag vegna heimanáms. Nánar má sjá:

  • Um 40% stúlkna upplifðu þreytu í skólanum en aðeins 6% drengja.
  • Rúmlega fjórðungi nemenda finnst alltaf vera hávaði í kennslustofu sem er nokkuð meira en gerist á landsvísu. Á það sérstaklega við um stúlkur.
  • Hreyfing mælist meiri hjá nemendum en gerist á landsvísu.
  • Þá mælist minni einmanaleiki bæði hjá drengjum og stúlkum en í samanburðarhópi.
  • Sú upplifun að finnast einhver baktala sig mælist hærri hér en gerist landsvísu.
  • Notkun áfengis mælist yfir landsmeðaltal en lægra en samanburðar skólar á Norðurlandi. Notkun nikotínpúða mælist undir landsmeðaltali og í samanburðarskólum á Norðurlandi.

Heilt yfir:

  • Það er hærra hlutfall nemenda hér sem segjast oft vera þreyttir í skólanum en gerist á landsvísu.
  • Heilt yfir virðast nemendur skólans lesa minna en í samanburðartölum.
  • Hreyfing mælist minni hér þegar á heildina er litið miðað við það sem gerist á landsvísu.
  • Drengjum finnst frekar að kennurum sé annt um sig sem einstakling en stúlkum.

Að lokum:

  • Þátttakendur í Íslensku æskulýðsrannsókninni voru 23742 nemendur í íslenskum grunnskólum, þar af 168 í Borgarhólsskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar má sjá á heimasíðu skólans.
  • Það er stefna ÍÆ að allur aðgangur að niðurstöðum verði gjaldfrjáls og gagnasafn eins opið og hægt er svo lengi sem nafnleynd þátttakenda er tryggð.
  • Yfirlit yfir niðurstöður og gagnagrunn ÍÆ og undirrannsókna hennar er hægt að nálgast í mælaborði HÉR.
  • Niðurstöður könnunarinnar geta aðilar notað til stefnumótun og ákvörðunartöku. Við rýnum í niðurstöðurnar, förum yfir þær á starfsmannafundi, teymi skoða þær og við kynnum foreldrum. Niðurstöður fyrir Borgarhólsskólamá nálgast HÉR.

Athugasemdir